Enn tapa Grindvíkingar
Grindvíkingar gerðu ekki góða ferð upp á Skaga í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Grindvíkingar máttu sætta sig við 2-1 tap og er staða þeirra á botninum orðin vægast sagt slæm.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur á Akranesi í kvöld. Dean Martin kom þeim yfir á 22.mínútu með góðu marki eftir góðan undirbúning Garðars Bergmanns Gunnlaugssonar. Vel útfærð skyndisókn Skagamanna sem skilaði markinu og þetta eina mark var munurinn á liðunum í hálfleik. Markaskorarinn þurfti að fara meiddur af velli nokkrum mínútum fyrir lokaflaut fyrri hálfleiks. Garðar Bergmann Gunnlaugsson tyllti sínum mönnum í þægilega 2-0 stöðu á 74.mínútu. Arnar Már Björgvinsson sendi fyrir markið eftir góða markvörslu Óskars Péturssonar, boltinn ratar á koll Garðars, sem stýrir boltanum í netið með höfðinu, gott skallamark það. Scott Ramsay, sem dvalist hefur á bekknum undanfarið í botnliði Grindavíkur, kom til sögunnar á 78.mínútu.
Tíu mínútum síðar skoraði hann frábært mark beint úr aukaspyrnu en lengra komust gestirnir ekki. Maður hefði haldið að Grindvíkingar þyrftu á svona leikmanni að halda lengur en um það bil 12 mínútur. Hann er einmitt þessi töframaður með boltann sem botnliðið þarf á að halda þessi misserin. Skagamenn komust með sigrinum í 4.sætið og hafa fengið 27 stig eftir 17 leiki.
Umfjöllun Sport.is