Enn stela Fylkismenn á lokamínútunum
Grindvíkingar eru úr leik í VISA-bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 0-1 tap gegn Fylki í kvöld. Sigurmarkið kom á 90. mínútu leiksins en það gerði Helgi Valur Daníelsson eftir nokkurn darraðardans í markteig Grindvíkinga. Þetta er því í annað sinn í sumar sem Fylkismenn stela sigrinum í viðureignum þessara liða en það gerðu þeir í 5. umferð Landsbankadeildarinnar og kom sigurmarkið þá á 88. mínútu.
Bæði lið léku mjög varfærnislega í fyrri hálfleik en á 13. mínútu leiksins átti Sinisa Kekic skot í varnarmann Fylkis en boltinn fór framhjá markinu. Skömmu síðar eða á 16. mínútu leiksins skallaði Kekic boltann í stöng eftir aukaspyrnu frá Óskari Haukssyni. Einungis mínútu síðar átti Guðni Rúnar skot úr aukaspyrnu fyrir Fylki sem rataði rétt framhjá markstöng Grindavíkur og nokkuð að lifna yfir leiknum.
Liðin skiptust á því að taka nokkrar sóknarrispur á milli rólegra kafla og það var ekki fyrr en á 33. mínútu sem Magnús Þorsteinsson tók erfitt skot á mark Fylkis við hliðarlínu sem geigaði og fylgdi Sinisa Kekic því eftir en inn vildi boltinn ekki. Fátt markvert gerðist eftir þetta og því gengu liðin jöfn til hálfleiks, 0-0.
Í síðari hálfleik komu gestirnir sprækari út úr búningsherbergjunum og á 46. mínútu átti Viktor Bjarki fast skot á mark Grindvíkinga sem Helgi Már Helgason varði vel í markinu.
Á 67. mínútu leiksins fékk Óli Stefán Flóventsson gult spjald fyrir háskalega tæklingu að Björgólfi Takefusa sem hann náði þó að hoppa upp úr en Gylfi Orrason, dómari leiksins, sýndi enga linkind og veifaði því gula.
Rétt eins og í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum sem skiptust á því að taka sóknarrispur en Fylkismenn áttu þó ívið fleiri skot á mark en heimamenn.
Eysteinn Hauksson, sem kom inn á sem varamaður í liði Grindavíkur, átti fínt skot á 82. mínútu sem strauk stöngina og næstu mínútur sóttu þeir gulu ansi stíft að Fylkismönnum en án árangurs. Reiðarslagið kom svo á 90. mínútu leiksins eftir að Helgi Már hafði varið skot frá Fylkismönnum sem honum tókst ekki að halda. Frákastið tók Helgi Valur og setti boltann í netið og gerði þar með bikardrauma Grindvíkinga að engu.
„Menn verða að vera fulleinbeittir allan leikinn og okkur var refsað illilega í lokin en svona er þetta, annað liðið verður að vinna,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, leikmaður Grindavíkur, í samtali við Víkurfréttir í kvöld. „Við höfum verið að tapa stórum leikjum á mjög dramatískan hátt og það er mjög niðurdrepandi og þetta er nánast að verða ávani hjá okkur, niðurdrepandi ávani. Engu að síður hefur verið stígandi í liðinu í síðustu leikjum og við verið meir og meir að spila bolta sem fólk vill sjá,“ sagði Óli Stefán. „Við eigum Val í næsta leik og í hann mætum við eins og grenjandi ljón. Ég vil þakka áhorfendum kærlega fyrir góðan stuðning undanfarið en hann er okkur mikilvægur og ef við fáum svona stuðning út sumarið þá kvíði ég ekki úrslitunum í deildinni,“ sagði Óli Stefán að lokum.
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]
Mynd 1: Fylkismenn skora sigurmarkið
Mynd 2: Helgi Már ver meistaralega í eitt af mörgum skiptum í leiknum
Mynd 3: Eysteinn Hauksson í miðjubaráttunni