Enn líf í Keflvíkingum
Keflvíkingar knúðu fram oddaleik í viðureignum sínum við Tindastól með 67-66 spennusigri á Sauðkrækingum í Keflavík fyrr í kvöld. Sigur Keflvíkinga á heimavelli hékk á bláþræði því fyrrum Keflvíkingurinn Kristinn Friðriksson fékk tækifæri til að stela sigrinum en langt þriggja stiga skot hans geigaði og Keflvíkingar fögnuðu hjartanlega því að fá annað tækifæri til að komast í úrslitaviðureignirnar um Íslandsmeistaratitilinn.Upphaf leiksins minnti verulega á annan leik liðanna, sem leikinn var í Keflavík, því Keflvíkingar tóku strax á sprett og skildu Tindastólsliðið eftir í hnakknum í grasinu og náðu helmingsforystu um tíma í fyrsta leikhluta sem endaði 31-14. Vörn Keflvíkinga var hvöss og Calvin Davis frábær á meðan vörn Sauðkrækinga opnaðist hvað eftir annað illilega. Þessi þróun hélt áfram í upphafi annars leikhluta og náðu Keflvíkingar meira en 20 stiga forystu áður en allt hrökk í baklás og gestirnir að norðan minnkuðu muninn í 48-35 áður en hálfleikurinn rann út. Strax í upphafi seinni hálfleiks mátti sjá að Keflvíkingar fundu ekki taktinn og Sauðkrækingar gengu á lagið hægt og bítandi, komust inn í leikinn og náðu forystu en staðan eftir 3 leikhluta var 61-59 fyrir Keflvíkinga. Síðasti leikhlutinn var í járnum frá upphafi og hlýtur að hafa farið verulega um áhangendur Keflvíkurliðsins. En þeir áttu eitt stk. Calvin Davis og sá piltur fór á kostum allan leikinn, skoraði 34 stig, tók 20 fráköst (10 í sókn) og stal knettinum 4 sinnum. Var ótrúlegt á stundum að fylgjast með pilti skora með báða turnana í Tindastólsliðinu á sér, spjaldið ofan í, beint í gegn, framhjá þeim, yfir þá, undir þá, með einni gabbhreyfingu í loftinu, tveimur gabbhreyfingum, á leiðinni afturábak, hoppandi áfram eða til hliðar. Það var alveg sama allt datt í gegnum hringinn. Hinum megin átti Shawn Myers stórgóðan dag. Hann skoraði 24 stig, tók líka 20 fráköst en nýtti skot heldur verr en Davis og tapaði því einstaklingseinvíginu að þessu sinni. Aðrir Keflvíkingar náðu sér engan veginn á strik nema ef skildi vera Hjörtur Harðarson sem náði einum góðum spretti en síðan ekki söguna meir. Rússinn Andropov átti alls kostar við þá Jón Nordal og Birgi Birgisson og lék sinn besta leik í seríunni og Adonins Pomones sýndi oft aðdáunarverða boltatækni í slagnum við pressuvörn Keflavíkur. Nú er að óskastundin, hreinn úrslitaleikur um heiðurinn til að spila til úrslita í Íslandsmótinu, á þriðjudaginn og segir mér hugur að Keflvíkingar þurfi að hlaða sínu fólki þétt í rútuna/rúturnar og herja á Krókinn persónulega ætli Keflvíkingar sér að brjóta heimavallarísinn þarna fyrir norðan.