Enn fjölgar Íslandsmeisturunum
Sleipnir að gera það gott
Sleipnir eignaðist um helgina tvo nýja Íslandsmeistara í Brazilian Jiu Jitsu þegar Íslandsmeistaramótið fór fram á Akureyri.
Ellefu keppendur fóru frá Njarðvíkingum í Sleipni þar sem þeir Daníel Dagur Árnason og Ægir Már Baldvinsson nældu sér í gullverðlaun. Þess má geta að um er að ræða fjórða titil Ægis á þessu ári.
Í síðustu viku varð Elimar Freyr Jóhannsson svo Íslandsmeistari í íslenskri glímu þar sem allir keppendur UMFN unnu til verðlauna.
Á Þessu ári hefur Júdódeildin eignast alls níu Íslandsmeistara í þremur greinum, glímu, júdó og BJJ. Stærsti titillinn er þó Íslandsmeistaratitill í júdó í liðakeppni undir 18 ára aldri. Ægir Már og Bjarni Darri fara svo að öllum líkindum til Frakklands í vor að keppa fyrir hönd Íslands á EM í Gouren og Backhold.