Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Enn eitt jafnteflið hjá Keflvíkingum
    Sigurbergur skorar annað mark sitt í leiknum. VF/mynd Eyþór Sæm.
  • Enn eitt jafnteflið hjá Keflvíkingum
    Heimamenn voru verulega ósáttir eftir að Beitir markvörður fékk að líta rauða spjaldið.
Sunnudagur 12. júní 2016 kl. 18:14

Enn eitt jafnteflið hjá Keflvíkingum

Framarar jöfnuðu tvívegis í fjörugum leik

Nánast allt sem knattspyrnan hefur upp á að bjóða sást í Keflavík í dag þegar Framarar voru í heimsókn í Inkasso deild karla. Meðal þess sem boðið var upp á var víti, rautt spjald og fjögur mörk, í fjörugu 2-2 jafntefli liðanna.

Keflvíkingar komust yfir eftir rúmlega 15 mínútur en þar var á ferðinni Sigurbergur Elisson sem hefur verið nánast óstöðvandi í sókn Keflvíkinga í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Framarar jöfnuðu eftir að Keflvíkingurinn Frans Elvarsson hafði gefið ódýra aukaspyrnu á kantinum sem úr varð mark. Strax í næstu sókn dró heldur betur til tíðinda en þá fékk Beitir Ólafsson í marki Keflvíkinga reisupassann eftir að hafa handleikið boltann utan teigs. Keflvíkingar voru allt annað en sáttir. Jónas Guðni Sævarsson þurfti þá að víkja fyrir Sindra Kristni Ólafssyni sem kom inn í markið hjá heimamönnum.

Þrátt fyrir að vera einum færri þá byrjuðu Keflvíkingar seinni hálfleik mun betur og uppskáru vítaspyrnu á 47. mínútur. Úr henni skoraði Sigurbergur Elisson örugglega og staðan nokkuð vænleg fyrir Keflvíkinga. Nú drógu heimamenn sig aftar á völlinn og fyrir vikið jókst pressa Framara. Þeir náðu loks að jafna leikinn á 64. mínútur eftir snarpa sókn upp vinstri kantinn sem lauk með fínum skalla sem endaði í netinu. Sindri Kristinn náði svo að verja vel nokkrum sinnum og einu sinni björguðu Keflvíkingar á línu það sem eftir lifði leiks.

Keflvíkingar eru ennþá taplausir í 1. deild, hafa gert fjögur jafntefli og sigrað tvo leiki. Það dugir þeim í fjórða sæti, þremur stigum frá efsta sæti.