Enn eitt jafnteflið hjá Keflavík
Eftir að hafa náð forystu gerði Keflavík fjórða jafnteflið á tímabilinu í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar Keflvíkingar tóku á móti Þrótti Reykjavík í gær.
Keflvíkingar fengu sín færi í gær og náðu forystu í seinni hálfleik en þeir héldu ekki út og Þróttarar jöfnuðu skömmu fyrir leikslok. Keflavík situr í fimmta sæti deildarinnar með tíu stig en áttundu umferð lýkur á morgun, þá mætir Grindavík Dalvík/Reyni og með sigri komast Grindvíkingar upp að hlið Keflvíkinga.
Þrátt fyrir að hafa sýnt frábærar hliðar í bikarkeppninni í sumar hafa Keflvíkingar ekki náð upp sömu stemmningu í deildarleikjum sínum. Fjarvera Sami Kamel hefur einnig mikil áhrif á leik liðsins en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu. Kamel, sem er án efa besti maður liðsins ef ekki deildarinnar allrar, var í leikmannahópi í gær þó hann kæmi ekki við sögu í leiknum og vonandi verður hann orðinn klár í slaginn í næstu umferð þegar Keflvíkingar taka á móti toppliði Njarðvíkur en Marc McAusland og félagar í ÍR gerðu Njarðvíkingum stóran greiða í gær þegar þeir unnu sigur á Fjölni sem situr því í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Njarðvík.
Keflavík - Þróttur 1:1
Keflvíkingar byrjuðu leikinn vel og komust í færi snemma í leiknum en markvörður Þróttar gerði vel og varði skot Dags Inga Valssonar í horn sem ekkert varð úr.
Dagur Ingi var líflegur í byrjun og skömmu eftir færið reyndi hann skot utan vítateigs sem varnarmenn gestanna komust fyrir.
Eftir ágætis byrjun Keflvíkinga unnu Þróttarar sig inn í leikinn og þeir skoruðu mark á 38. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu. Annars var lítið að frétta í fyrri hálfleik og staðan því markalaus í leikhléi.
Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoruðu Keflvíkingar. Keflvíkingar sóttu og Axel Ingi Jóhannesson sendi þá boltann á Edon Osmani sem var staðsettur rétt utan vítateigshorns Þróttar. Edon lék laglega inn í teiginn og ógnaði skoti, varnarmenn gestanna einbeittu sér að því að loka á skotið en Edon lagði boltann laglega fyrir Ara Stein Guðmundsson sem var þá óvaldaður í teig gestanna og hann sendi boltann hnitmiðað upp í fjærhornið (55').
Kraftur Þróttara jókst við að fá á sig mark og skömmu eftir það þurfti Ásgeir Orri Magnússon að taka á honum stóra sínum í marki Keflavíkur þegar hann varði í tvígang vel eftir hornspyrnu gerstanna.
Tíu mínútum fyrir leikslok sóttu gestirnir og Nacho Heras fór aftan í sóknarmann þeirra nokkrum metrum utan teigs og uppskar gult spjald og aukaspyrna dæmd.
Kostiantyn Iaroshenko tók spyrnuna og skrúfaði boltann yfir vegginn og í nærhornið, frábært mark og gersamlega óverjandi fyrir Ásgeir Orra (85').
Keflvíkingar settu allt sitt í að ná forystu á ný fyrstu mínúturnar eftir jöfnunarmarkið, án árangurs. Þeir mega prísa sig sæla að Þróttur hafi ekki stolið öllum stigunum á fimmtu mínútu uppbótartíma en þá fékk Iaroshenko fínt færi í teig heimamanna en varnarmenn Keflavíkur komust fyrir slakt skot hans og boltinn í horn.
Þannig endaði leikurinn og Keflvíkingar hafa enn ekki fundið taktinn. Það vantar áþreyfanlega meira bit í sóknarleikinn og í raun var varnarmaðurinn Nacho Heras hættulegastur í sókn heimamanna og sá sem komst næst því að skora fyrir Keflavík.
Leik Keflavíkur og Þróttar má sjá í spilaranum hér að neðan.