Enn einn titillinn í safn Keflavíkurstúlkna
Keflvíkingar vörðu titil sinn í Hópbílabikarkeppni kvenna í dag með 76 stigum gegn 65.
Leikurinn var spennandi og jafn framan af þar sem Keflavík hafði nauma forystu eftir fyrsta leikhluta, 21-19. Munurinn var enn tvö stig í hálfleik þar sem Keflavík leiddi 39-37.
Frammistaða Keflvíkinga í hálfleiknum var ekki í takt við leik þeirra í vetur og var það sérstaklega vörninni sem var áfátt.
Þegar stúlkurnar komu til leiks í seinni hálfleikinn hafði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari þeirra, greinilega átt við þær vel valin orð því þær skelltu öllu í lás.
Stúdínur skoruðu einungis sex stig í þriðja leikhluta þar sem Keflavík náði þægilegu forskoti, 56-43, fyrir lokasprettinn.
Fjör færðist í leikinn í síðasta leikhlutanum þar sem Stúdínur létu finna fyrir sér. Nokkrar góðar körfur frá ÍS breyttu stöðunni í 65-60 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.
Meistaralið Keflavíkur hélt þó út og tryggði sér titilinn í þriðja árið í röð.
„Við þurftum að hafa fyrir þessum sigri, en ég bjóst heldur ekki við öðru,“ sagði Sverrir Þór að loknum fagnaðarlátunum. „Við vorum ekki að leika nógu vel í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik gíruðum við okkur upp. Þegar hugarfarið og einbeitningin lagaðist fór þetta að ganga upp.“
Þar með er enn einn titillinn í húsi hjá liði Keflvíkur og óska Víkurfréttir þeim til hamingju með árangurinn.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/Þorgils Jónsson