Enn einn sigurinn hjá Keflavíkurstelpum
Topplið Keflvíkinga mættu botnliði Völsungs í Lengjudeild kvennan á Nettóvellinum í dag.
Það var fyrirliðinn, Natasha Anasi, sem reið á vaðið og kom Keflavík yfir á 10. mínútu, hennar sjötta mark í sumar sem gerir hana markahæsta í deildinni ásamt Dröfn Guðmundsdóttur.
Staðan var 1:0 í hálfleik en á 55. mínútu náðu Völsungsstelpur að svara fyrir sig og jafna leikinn. Hélst staðan jöfn þar til Sigurrós Eir Guðmundsdóttir kom Keflavík aftur yfir (70') og það var svo Amalía Rún Fjeldsted sem bætti við þriðja marki Keflvíkinga á 85. mínútu og 3:1 urðu lokatölur leiksins.
Keflavík efst í deildinni
Keflavík hefur enn ekki tapað leik í Lengjudeildinni og er efst með tuttugu stig, næst kemur Tindastóll með sextán stig en Tindastóll er að leika gegn Aftureldingu þegar þetta er skrifað. Það er því ljóst að Keflavík heldur toppsætinu með eins stig forskoti hið minnsta.
Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, stóð vaktina og tók myndir úr leiknum eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni.