Enn einn sigur Þróttara
Þróttur er ekkert á því að gefa eftir í 2. deild karla í knattspyrnu. Eftir sannfærandi 3:0 sigur á Dalvík/Reyni í gær sitja Þróttarar í öðru sæti deildarinnar með 22 stig að loknum ellefu leikjum, jafnir Selfossi að stigum en með betra markahlutfall.
Það var Viktor Smári Segatta sem skoraði í tvígang (34’ og 88’) og eitt markið var sjálfsmark (81’).
Þróttur hefur ekki tapað leik síðan í þriðju umferð er þeir töpuðu gegn Haukum á heimavelli (1:2), síðan hefur leiðin legið upp á við og þeir stefna ótrauðir á sæti í Lengjudeildinni að ári.
Á heimasíðu Þróttar má sjá myndaveislu úr leiknum.