Enn ein markaveislan hjá Grindvíkingum
Eru tveimur stigum frá toppnum eftir 0-4 sigur á Haukum
Grindvíkingar hafa skorað allra liða mest í 1. deild karla í fótbolta en þeir héldu uppteknum hætti í kvöld þegar þeir lögðu Hauka 0-4 á útivelli. Alexander Veigar Þórarinsson var allt í öllu hjá þeim gulklæddu en hann skoraði tvö mörk og lagði upp hin tvö. Hann er nú markahæsti leikmaður deildarinnar.
Grindvíkingar settu tvö mörk á fyrsta korterinu og eftir það var brekkan ansi brött fyrir Hafnfirðinga. Alexander Veigar skoraði fyrst en hann lagði svo upp fyrir Juan Jimenez félaga sinn. Í upphafi síðari hálfleiks bætti Andri Rúnar Bjarnason við þriða marki Grindvíkinga áður en Alexander Veigar rak smiðshöggið með því fjórða þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum.
Grindvíkingar sitja nú í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KA sem á leik til góða. Sóknarleikur Grindvíkinga hefur verið glimrandi góður en þeir hafa skorað 30 mörk í 12 leikjum, þar af hafa þeir skorað fjögur mörk eða fleiri í fjórum leikjum.