Enginn bikar til Suðurnesja - Grindavík og Keflavík töpuðu í Höllinni
Hvorugt Suðurnesjaliðanna kom heim með körfuboltabikarinn því Grindavík tapaði fyrir Snæfelli í karlaflokki og Haukar lögðu Keflavík í kvennaflokki í Laugardalshöllinni í gær.
Grindavík náði ekki að vinna Bikarinn í fimmta sinn í jafn mörgum tilraunum því Snæfell vann nokkuð sannfærandi sigur 92-81. Grindavík byrjaði leikinn betur og höfðu forskotið eftir fyrsta leikhluta en eftir það tók snæfell við bilstjórasætinu og leiddu leikinn nánast allt til enda.
Sean Burton fór á kostum í liði Snæfells og segja má að hann hafi skotið Grindavík í kaf með heilum 36 stigum og þar af 5 þriggja stiga körfur og 71% nýtingu í tveggja stiga skotum. Hann var í lok leiksins útnefndur Maður leiksins. Næstu menn á blað hjá Snæfell voru Sigurður Þorvaldsson með 14 stig, Jón Ólafur Jónsson með 12 stig og Hlynur Bæringsson með 10 stig og heil 19 fráköst. Hjá Grindavík var Brenton Birmingham stigahæstur með 17 stig en næstir voru Þorleifur Ólafsson og Darrel Flake með 16 stig hvor.
Magnaður bikarúrslitaleikur kvenna endaði með sigri Hauka 83-77. Þó að það hafi aðeins munað 6 stigum á liðunum í leikslok þá unnu Haukar þvílíkan yfirburðasigur í fráköstunum að annað eins hefur ekki sést í langan tíma. Þegar yfir lauk höfðu Haukar tekið 27 sóknarfráköst gegn 4 sóknarfráköstum Keflavíkur og til gamans má geta að Keflavík náði aðeins að hirða einu fleiri varnafráköst en sóknarfráköst Hauka, eða 28 stykki.
Keflavík hafði forskotið eftir fyrsta leikhluta en strax í upphafi annars leikhluta tóku Haukar frumkvæðið og héldu því lengst af þar til yfir lauk. Stigahæst í liði Haukar var Heather Ezell með þrefalda tvennu, 25 stig, 11 stoðsendingar og 15 fráköst. Næst var hin unga og efnilega María Lind Sigurðardóttir með 20 stig og 9 fráköst( þar af 7 sóknarfrákast) á um aðeins 23 mínútum, en hún átti hreint út sagt frábæran leik í höllinni í dag og var hún verðlaunuð í lok leiks með titlinum “Maður leiksins” Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atvkæðamest með 22 stig en næstar voru Kristi Smith með 20 stig og Bryndís Guðmunsdóttir með 19 stig. Þetta var þriðji tapleikur Keflavíkur í bikarúrslitum í röð.