Engin Svíagrýla í Keflavík
Keflavík vann öruggan sigur á sænska liðinu Norrköping í kvöld, 109-99, í bráðskemmtilegum og hröðum leik. Þetta var fyrsti Evrópusigur Keflvíkinga í vetur, en þeir töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum.
Heimamenn geta þakkað frábærri vörn og mikilli baráttu undir körfunum fyrir þennan sigur en auk þess átti Daninn Thomas Soltau frábæran leik fyrir Keflavík. Soltau gerði 38 stig, tók 13 fráköst og gaf 4 stoðsendingar þar sem leikmenn Norrköping áttu ekkert í hann. Einnig var Jermaine Williams afar drjúgur, með 21 stig og 8 fráköst, en hann lék gríðargóða vörn og hélt varnarleik sinna manna saman ásamt Sverri Þór Sverrissyni sem átti einn sinn besta leik í vetur.
Keflvíkingar náðu snemma frumkvæðinu meðp 8-0 rispu sem breytti stöðunni í 18-13 og þeir héldu forystunni allan tímann. Svíarnir áttu að vísu góða spretti í 2. og 4. leikhluta en voru aldrei líklegir til að leggja gestgjafana.
VF-myndir/Þorgils