Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Engin miskunn!
Fimmtudagur 10. janúar 2008 kl. 23:58

Engin miskunn!

Njarðvíkingar völtuðu yfir Þór frá Akureyri í einhverjum eftirminnilegasta leik sem lengi hefur farið fram í Ljónagryfjunni. Lokatölurnar voru 139-90 og má raunar segja að tölurnar segi allt um það hvernig leikurinn var.

Eftir sárt tap gegn Snæfelli í síðustu umferð mættu Njarðvíkingar dýrvitlausir til leiks og tættu Norðanmenn í sig frá fyrstu mínútu. Brenton birmingham fór fyrir sínum mönnum og var kominn með 16 stig á skýrslu þegar einungis 4:30 voru liðnar af leiknum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 41-25 og ljóst í hvað stefndi.

Ekki stóð steinn yfir steini hjá Þórsurum sem voru sem þrumu lostnir og Njarðvíkingar fóru sínu fram í sókninni þar sem þeir skoruðu nær að vild. Brenton, Hörður Vilhjálmsson og Damon Bailey fóru fyrir heimamönnum en í raun má segja að allir leikmenn þeirra hafi átt stjörnuleik.

Í hálfleik var staðan 75-42, en þriðji leikhluti var enn verri fyrir gestina þar sem stigunum rigndi niður hjá Njaðrvíkingum. Það var ekkert slegið af þó úrslit væru löngu ráðin og engin miskunn sýnd. Engu að síður var Teitur Örlygsson að leyfa öllum að spila og fyrirliðinn Friðrik Stefánsson lék minnst af öllum, eða einungis 2 mínútur í öllum leiknum, áður en hann gat sest á bekkinn og fylgst með sínum mönnum landa þessum sigri. Hann hefur átt við veikindi að stríða í vetur og óþarfi að slíta honum út í svona verkefni. Í fjarveru hans átti Egill Jónasson skínandi leik þar sem hann skoraði 9 stig, tók 6 fráköst, stal 4 boltum og varði 7 áður en hann fékk sína fimmtu villu.

Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Þórsarar fóru að svara fyrir sig, en það breytti ekki nokkru um gang leiksins. Minni spámenn Njarðvíkinga eins og Elías Kristjánsson fengu að spreyta sig og sýndu oft skemmtileg tilþrif .

Lokatölur Njarðvíkinga, 139 stig, eru sannarlega sjaldséðar og samkvæmt lauslegu yfirliti Víkurfrétta hefur ekkert lið skorað jafn mikið í efstu deild karla frá marsmánuði 1997 þegar Keflavík lagði Tindastól, 149-79.

Leikur Njarðvíkinga ætti að gefa góð fyrirheit um framhaldið, en þeir hafa verið ansi brokkgengir í vetur. Raunar er pakkinn á toppi Iceland Express-deildarinnar að þéttast verulega og verður gaman að sjá hverju fram vindur á komandi mánuðum.

VF-myndir/Þorgils - Fleiri í Ljósmyndasafni VF
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024