Endurkomusigur hjá Keflavík í Lengjubikar kvenna
Keflavík vann Aftureldingu þegar Keflvíkingar léku sinn fyrsta leik í Lengjubikar kvenna í Nettóhöllinni í dag.
Afturelding komst yfir á 8. mínútu þegar Keflvíkingar voru hálfsofandi í vörninni og mistókst að hreinsa frá. Afturelding tvöfaldaði forystuna á 23. mínútu þegar Vera Varis, nýr markvörður Keflavíkur, náði ekki að slá skot yfir og missti boltann aftur fyrir sig og í markið. Tvö klaufaleg mörk og gestirnir komnir í góða stöðu.
Þrátt fyrir slæma byrjun misstu Keflvíkingar ekki hausinn og héldu áfram að sækja. Eftir hálftíma leik kom fyrsta mark Keflavíkur, það kom eftir hraða sókn og smá klafs í teignum, boltinn endaði hjá Elfu Karen Magnúsdóttur sem sendi hann viðstöðulaust framhjá markverði Aftureldingar og í netið (30'). Elfa var svo aftur á ferðinni skömmu síðar þegar Dröfn Einarsdóttir sótti upp hægri kantinn og sendi boltann á Elfu sem var á auðum sjó fyrir framan markið og gat ekki annað en skallað í markið (37'). Staðan 2:2 í hálfleik.
Bæði lið sköpuðu sér færi í seinni hálfleik en það var Caroline McCue Van Slambrouck sem skoraði sigurmarkið á 75. mínútu og Keflavík landaði þremur stigum í fyrsta leik.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.
Önnur úrslit:
Víkingur - Njarðvík 3:1
Mörk: Marc McAusland (12' sjálfsmark), Oumar Diouck (23' víti), Nicolaj Hansen (39') og Helgi Guðjónsson (90').
HK - Grindavík 4:0
Mörk: Atli Arnarson (30', 68' víti, 90'+3 víti) og Tumi Þorvarsson (88').