Endurfundir í Noregi
Haraldur mætti nokkrum tímum fyrir leik og snæddi hádegismat með liðinu og sagðist ekki vilja missa af sínu gamla liði í Noregi. Haraldur viðurkenndi að á brattann væri að sækja fyrir Keflavík og sagði það skipta litlu hvort það væri tuttugu eða tveggja stiga hiti. Það yrði ekki vandamál Keflvíkinga. Haraldur hafði mestar áhyggjur af því að Keflvíkingar myndu bera of mikla virðingu fyrir Lilleström og sagði að menn þyrftu að stappa stálinu í sig fyrir leikinn.
Blaðamaður Víkurfrétta hitti á Stefán Gíslason eftir leik en hann mætti með alla fjölskylduna sína á leikinn. Stefán sagði að það hefði verið súrt í bragði að Keflvíkingar skyldu hafa fengið fjórða markið á sig að loknum venjulegum leiktíma. Hann taldi að það hefði enn verið möguleiki fyrir Keflvíkinga til þess að komast áfram í keppninni ef þeir hefðu aðeins farið heim með 3-1 á bakinu.
Leikmenn Keflavíkurliðsins tóku sínum gömlu félögum fagnandi en skömmu eftir leik héldu Haraldur og Stefán sína leið en þeir eiga báðir að leika með sínum félögum í deildinni í dag.
Mynd 1: Haraldur kátur í bragði á Thon Hotel Arena þar sem Keflavíkurliðið dvelur. Í baksýn má sjá Hólmar Örn Rúnarsson, stórvin Haraldar, bregða fyrir.
Mynd 2: Stefán Gíslason