Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Endastöð Öskubusku verður í Breiðholtinu
Föstudagur 17. janúar 2014 kl. 14:05

Endastöð Öskubusku verður í Breiðholtinu

Njarðvíkingar brosa í leikslok

Á sunnudaginn fara fram 8-liða úrslit í bikarkeppni karla í körfubolta. Þrjú Suðurnesjalið eru ennþá með í baráttunni en þar af mætast tvo þeirra innbirgðis. Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára, Grindvíkingar, taka á móti Njarðvíkingum í Röstinni í stórleik umferðarinnar. B-lið Keflvíkinga eru fulltrúar Bítlabæjarins að þessu sinni en þeir mæta ÍR-ingum á útivelli, en Njarðvíkingurinn Örvar Kristjánsson er þjálfari ÍR. Víkurfréttir hafði samband við nokkra valinkuna körfuboltaáhugamenn og fyrrum leikmenn og fékk þá til þess að spá fyrir um úrslit leikjanna.

Rúnar Árnason hefur taugar til bæði Grindvíkinga og Njarðvíkinga en hann lék með báðum liðum á glæstum ferli sínum. Rúnar leit í kristalskúluna frægu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

ÍR – Keflavík B

„Þetta verður skemmtilegt „show“ þar sem æskan mun ráða ríkjum. Bikarævintýri gömlu kempnanna í Keflavík B er mjög kærkomið fyrir unga sem aldna körfuboltamenn um land allt og hleypir lífi í gamlar körfuboltasálir, en því miður held ég að endastöð Öskubusku verði í Breiðholtinu. Þungavigtin liggur ekki í getu á vellinum heldur uppsöfnuðum aukakílóum leikmanna, að Gunna Einars undanskildum, sem er Keflavík B í óhag.  ÍR-ingar munu stjórna þessum leik og eru allt annað lið með Njarðvíkinginn Nigel Moore innanborðs. Ég held að úrvalsdeildarvörnin verði Keflvíkingum erfið. Gamlar kempur með Gunna Einars og Damon Johnson (ef hann verður með) í broddi fylkingar munu standa fyrir sínu, og svo munu auðvitað aðrir þungavigtamenn Keflavíkur setja sína þrista meðan úthald leyfir og munu þeir sýna að þeir kunna þetta enn. Þetta verður samt 20 stiga heimasigur ÍR-inga.“

Á von á besta leik ársins

Grindavík – Njarðvík
„Á ekki von á öðru en frábærum leik, annað verður vonbrigði.
Ég hef auðvitað taugar til beggja liða. Borinn og barnfæddur Grindvíkingur, lék með þeim alla mína yngri flokka og lungan af mínum ferli í meistaraflokk. Ég átti stórkostlegan tíma með Njarðvík á árunum 1993 til 1997 og upplifi frábæran tíma í stórkostlegu liði með topp mönnum sem voru fæddir sigurvegarar. Hið unga lið Njarðvíkur í dag ber góðan og skemmtilegan keim af því að vera sigurvegarar framtíðarinnar í Njarðvík og á ég því ekki von á öðru en þetta verði hörku leikur. Sé ég fyrir mér að þetta verður besti leikur ársins, hingað til! Leikurinn mun einkennast af stífum varnarleik og mistökum til að byrja með, en síðan munu menn detta fljótlega í gírinn til að gera þetta að góðri skemmtun. Nýi útlendingurinn hjá Njarðvík fær loks alvöru mótspyrnu í teignum frá Sigga Þorsteins og sú rimma verður hörð og skemmtilega á að horfa. Sigurinn fellur þeim megin þar sem stemningin og jákvæðnin verður betri og að auki hjá því liði sem sem bekkurinn skilar meiru. Úrslitin ráðast ekki fyrr en á lokasekúndunum þar sem Njarðvík mun brosa meira í leikslok.“