EM spekingar: Arnór er okkar vonarstjarna á mótinu
Teitur Örlygsson spáir í spilin
Teitur Örlygsson er eldheitur aðdáandi íslenska landsliðsins í fótbolta. Hann verður í Bandaríkjunum á meðan keppni stendur en ætlar að sjálfsögðu að horfa á alla leikina. Hann spáir Íslendingum góðu gengi og spáir því jafnframt að Njarðvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason eigi eftir að skora á mótinu.
Hverjir vinna EM?
Það verður Þýskaland.
Hvaða veitingar/drykki ertu að vinna með yfir leikjum íslenska liðsins?
Líklega verður það appelsínusafi.
Hvernig munu Suðurnesjamennirnir standa sig á mótinu?
Þeir verða auðvitað til sóma, býst ekki við að Ingvar fái séns nema að meiðsli setji strik í reikninginn. Arnór Ingvi er á mörkunum að vera í byrjunarliði, verður það 100% í einhverjum leik. Hann hefur stimplað sig inn sem okkar vonarstjarna í þessari keppni. Er sjóðandi heitur og á eftir að setja mark á EM.
Hvernig finnst þér nýi búningurinn hjá landsliðinu?
Auðvitað er búið að kaupa nýja búninginn, ég tók bláa búninginn en sonur minn Aron þann hvíta.
Hvar á að horfa á leikina og með hverjum?
Ég verð í Bandaríkjunum yfir EM og horfi á allt saman á ESPN með góðum vinum. Það útskýrir orange djúsinn (6 tíma tímamismunur á Florida og Frakklandi).
Hvernig mun Íslendingum ganga?
Ísland fer upp úr riðlinum, vil ekki kjafta meira í ykkur svo þetta verði áfram spennandi.