Elvar Friðriksson yfirgefur LIU skólann
- leið ekki vel og spilar í Miami næsta vetur
Elvar Már Friðriksson hefur ákveðið að halda ekki áfram skólagöngu sinni við LIU háskólann í Brooklyn í New York. Það er karfan.is sem greinir frá.
Elvar kemur til með að flytja sig suður til Miami í Flórída þar sem að hann mun spila fyrir 2. deildar skólann Barry University. Aðspurður segist Elvar vera að skipta um skóla af nokkrum ástæðum, þá meðal annars af því að honum hafi ekki liðið vel við LIU. Þá segist Elvar eiga eftir að sakna þess að spila við hlið vinar síns, KR-ingsins Martins Hermannsonar.
Elvar fékk heilmikið að spila með LIU skólanum í vetur og átti fína spretti. Hann segist eiga von á því að spila veigamikið hlutverk hjá Barry University en skólinn hefur verið einn af bestu 2. deildar skólum landsins undanfarin ár og útskrifaðst leikstjórnandi þeirra til síðustu 3ja ára nú í vor. Þar ætti að skapast rými fyrir Elvar til að láta að sér kveða.