Elva Lísa setti glæsilegt Íslandsmet í hreystigripi
Frábær árangur Suðurnesja-skólanna í undanriðlunum.
Elva Lísa Sveinsdóttir, nemandi í Njarðvíkurskóla, bætti Íslandsmetið í hreystigreip í riðlakeppni í Skólahreysti sem fram fór í Smáranum í gærkvöld. Hún náði þeim ótrúlega árangri að bæta metið um meira en fjórar og hálfa mínútur.
Elva Lísa náði tímanum 11:08 mínútur í hreystigreipinni. Meðaltalið í hreystigreip í Skólahreysti, sem felst í því að haga á slá, er frá upphafi um 2:35 mínútur. Birta Jónsdóttir úr Varmárskóla átti fyrra metið, 6:28 mínútur, sem er frá árinu 2010. Margir töldu að það yrði seint slegið.
Í fréttatilkynningu segir að árangur Elvu Lísu sé með ólíkindum og stemningin í Smáranum var sem aldrei fyrr þegar hún nálgaðist að slá met Birtu. Síðan gerðist hið ótrúlega. Elva Lísa bætti Íslandsmetið um yfir fjórar og hálfa mínútur.
Elva Lísa sýndi nýja tækni í hreystigreipinni með því að hanga af og til á annarri hendi og láta annan handlegginn síga niður og tryggði þannig betra blóðflæði til handleggjanna. Til að geta nýtt sér þessa tækni er þó ljóst að greipin þarf að vera ansi traust. Um magnaðan árangur er að ræða.
Krakkar af Suðurnesjum hafa verið sigursælir í Skólahreysti. Holtaskóli hefur unnið keppnina undanfarin tvö ár og Heiðarskóli varð í öðru sæti árið 2010. Grunnskólarnir í Reykjanesbæ náðu mjög góðum árangri í undanriðili í gær en þar röðuðu skólar úr bænum sér í fimm efstu sætin. Holtaskóli varð í efsta sæti með 80 stig, Myllubakkaskóli annar með 77,5 stig, Heiðarskóli í þriðja með 65,5 stig, Njarðvíkurskóli fjórði með 63,5 stig og Akurskóli í fimmta sæti með 59,5 stig. Grunnskólinn í Sandgerði og Vogum tóku einnig þátt í gær.
Myndirnar hér að neðan fengum við sendar frá Holtaskóla sem var hlutskarpastur í undrriðlinum.
-
-
-
-