Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eltu drauminn suður
Piltarnir búa saman á Faxabrautinni og gengur sambúðin vel að þeirra sögn. Þeir kunna vel við sig Í Reykjanesbæ en viðkenna að fá stundum heimþrá. Þá helst sakna þeir þess að fá mömmumatinn víðfræga. „Maður verður stundum þreyttur á súrmjólk og hafragraut
Laugardagur 13. desember 2014 kl. 09:00

Eltu drauminn suður

Andrés og Eysteinn fóru frá Egilsstöðum til þess að láta að sér kveða í Keflavík

Héraðsbúarnir Eysteinn Bjarni Ævarsson og Andrés Kristleifsson ákváðu að elta æskudrauminn og flytja suður til þess að leika körfubolta með einu sigursælasta félagi Íslandssögunnar. Þeir gengu til liðs við Keflavík nú í sumar en báðir eru þeir uppaldir á Egilsstöðum, þar sem þeir hafa spilað með Hetti alla tíð. Strákarnir hafa komið sér vel fyrir á Faxabrautinni í Reykjanesbæ, steinsnar frá íþróttahúsinu og FS, þar sem þeir stunda nám. Þeim leist strax vel á að að flytja hingað í Reykjanesbæ þar sem auðvelt er að tvinna saman nám og íþróttir. Eftir gott gengi með Hetti í fyrstu deild og með yngri landsliðum Íslands, höfðu þeir úr fjölda áhugasamra liða að velja nú í sumar. Þeir ákvaðu að taka stökkið og reyna fyrir sér í deild þeirra bestu, hjá liði sem þeir höfðu fylgst grannt með frá unga aldri.

„Við hefðum ekki komið hingað ef við hefðum ekki trú á því að við gætum spjarað okkur. Þegar svona klúbbur eins og Keflavík hefur samband þá er þetta einfaldlega tækifæri sem maður tekur,“ segir Eysteinn. „Það var hálfgert sjokk að heyra af áhuga Keflvíkinga en maður er búinn að fylgjast með liðinu síðan maður var krakki. Maður var bara búinn að sjá þessa kalla eins og Gunna og Damon í sjónvarpinu, en nú eru þeir að æfa með okkur. Það er virkilega gaman að spila með þeim,“ bætir Andrés við.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir hafa báðir æft körfubolta frá því að þeir komust til vits og ára, en Andrés dró Eystein fyrst á æfingu. Þeir hafa verið eins og Malt og Appelsín síðan, góð blanda sem smellur saman, jafnt innan vallar sem utan. Þegar sú hugmynd kom upp að færa sig um set frá Egilsstöðum, þá var ljóst að um pakkadíl yrði að ræða. Tveir fyrir einn ef svo mætti segja. „Það var eiginlega ekki í myndinni að fara í sitthvort liðið,“ segja þeir félagar. Þeir vilja skiljanlega ná sem lengst í boltanum en gera sér grein fyrir því að erfitt getur verið að vinna sér inn sæti í sterku úrvalsdeildarliði.

Gaman að vinna með hinum íslenska Phil Jackson
„Maður hugsaði mér sér að vinna mér inn sæti í liðinu hægt og bítandi en kannski ekki að fá að spila alveg strax,“ segir Andrés. „Þetta er undir okkur sjálfum komið, þetta gerist ekki bara að sjálfu sér,“ skýtur Eysteinn inn í  samtalið. Báðir voru þeir í lykilhlutverki hjá Hetti og því talsvert viðbrigði að spila mun færri mínútur og bera minni ábyrgð. Þeir segjast þó báðir finna fyrir því að þeir séu að bæta sig sem leikmenn með aukinni samkeppni, hörku og hraða. Hér æfa þeir meira en fyrir austan enda aðstaðan betri en þeir eru vanir. Svo ekki sé talað um þjálfarana og þeirra þátt í bættum leik strákana. „Það er ekki leiðinlegt að vera með sigursælasta þjálfara Íslands yfir sér,“ segir Eysteinn. „Maður leit mikið upp til hans. Siggi (Ingimundar) er eiginlega hinn íslenski Phil Jackson, “ segir Andrés og hlær.

Á Egilsstöðum er nokkuð sterk hefð fyrir körfubolta en lið Hattar hefur verið sterkt undanfarin ár. Karfan er í stöðugri sókn fyrir austan og þá sérstaklega á Egilsstöðum að sögn strákana. Lið Hattar er einmitt í efsta sæti 1. deildar núna og þykir líklegt til afreka á tímabilinu. Báðir voru þeir Eysteinn og Andrés hluti af sterkum árgangi fyrir austan sem m.a. vann bikarmeistaratitill í 10. flokki, en það var fyrsti titilinn í sögu félagsins í körfuboltanum. Höttur var yfirleitt í efsta riðli í þeirra árgangi og léku þeir því á móti sterkustu liðum landsins. Þar á meðal Suðurnesjaliðinum. Þeir þekkja því vel til þeirra ungu og efnilegu leikmanna sem finna má hér á svæðinu. Eins höfðu þeir báðir leikið talsvert með yngri landsliðum Íslands. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig þessir ungu og efnilegu leikmenn koma til með að spjara sig en nú þegar hafa þeir látið að sér kveða í Domino’s deildinni.

Austfirðingarnir eru klárir í slaginn í úrvalsdeildinni.