Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ellismellur á undanþágu og ætlar alla leið
Fimmtudagur 27. mars 2008 kl. 12:35

Ellismellur á undanþágu og ætlar alla leið

Íslandsmótið í Ólympískum hnefaleikum fer fram í Hafnarfirði og Reykjanesbæ um næstu helgi og verður keppt í öllum þyngdarflokkum. Undankeppnin fer fram í Hafnarfirði í kvöld en lokakvöldið fer fram í HFR hnefaleikahöllinni í Reykjanesbæ á laugardagskvöld og hefjast herlegheitin kl. 20:00. Suðurnesjamenn munu ekki láta sitt eftir liggja í keppninni og hefur bardagahæsti hnefaleikamaður landsins, Vikar Sigurjónsson, fengið sérstaka undanþágu til að vera með í mótinu.

 
Á laugardag er reiknað með níu úrslitabardögum en nánar verður hægt að lesa um undankeppnina á vf.is þegar það ræðst hvaða boxarar munu mætast í hringnum um Íslandsmeistaratitlana í lokakeppninni í Reykjanesbæ á laugardag.
 
Vikar er 35 ára gamall og keppir í léttþungavigt á Íslandsmótinu og mun þar mæta bardagmönnum sem verða um 10 árum yngri en hann. Vikar fékk undanþágu til að vera með á Íslandsmótinu en samkvæmt hnefaleikastöðlum er hann kominn í ,,old boys” flokk og kveðst ekki sáttur við það.
 
,,Ég er ekki búinn að boxa mikið en er samt í toppformi. Ég byrjaði síðasta miðvikudag og tók þá eina boxæfingu en það er eitt að vera í góðu formi og annað að vera með góða tímasetningu í íþróttinni. Maður þarf að boxa tímasetninguna í sig,” sagði Vikar sem ætlar sér mikla hluti um helgina.
 
,,Ég ætla mér að taka titilinn. Ég er 35 ára og í stórmótum og á Ólympíuleikum er 34 ára hámarkið og eftir það detta menn yfir í ,,old boys” og ég er ekki alveg sáttur við það. Ég finn það bara að það er langur vegur í gamlingjaflokkinn hjá mér,” sagði Vikar hress í bragði. Þrátt fyrir að vera aðeins 35 ára er Vikar ellismellur í íþróttinni með undanþágu sem hann ætlar að nýta til hins ítrasta en vegurinn á lokakvöldið er langur þar sem fimm einstaklingar eru í flokknum svo undankeppnin verður strembin.
 
Vikar bætti því einnig við að það væri eins gott að hann hefði fengið undanþágu inn í mótið því annars hefði aðsóknin orðið lítil sem engin. Stutt í gamanið hjá einum reynslumesta boxara landsins.
 
Það verður því hnefaleikaveisla um helgina sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara og hægt verður að fylgjast með gangi mála á vf.is
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024