Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ellen Lind Ísaksdóttir er íþróttamaður Voga 2021
Fimmtudagur 6. janúar 2022 kl. 08:56

Ellen Lind Ísaksdóttir er íþróttamaður Voga 2021

Frístunda- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Voga útnefndi aflraunakonuna Ellen Lind Ísaksdóttur íþróttamann ársins en hún náði því magnaða afreki á síðasta ári að vinna titilinn „Sterkasta kona Íslands“ þriðja árið í röð þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að stunda aflraunir fyrr en árið 2018.

Við afhendingu viðurkenningarinnar hafði Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, meðal annars þetta að segja um Ellen:

„Ellen er frábær fyrirmynd í alla staði enda bæði dugnaðarforkur með meiru og með hjarta úr gulli. Hún er ávallt brosandi og til í að hjálpa fólki og gerir alla daga betri fyrir þá sem á hennar vegi verða. Sem starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar er hún vel liðin af börnum og samstarfsfólki og einnig hafa mörg leikskólabörnin haft orð á því að þau ætli að vera dugleg að borða matinn sinn svo þau verði sterk eins og Ellen.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sá háttur er hafður á í Vogum að frístunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins velur íþróttamann sveitarfélagsins á hverju ári og veitir einnig hvatningarverðlaun eftir að hafa auglýst eftir tilnefningum, að þessu sinni bárust tvær tilnefningar til íþróttamanns ársins og fjórar tilnefningar til hvatningarverðlauna. 

Ellen Lind Ísaksdóttir og Unnar Ari Hansson voru tilnefnd til íþróttamanns ársins og ákvað nefndin að veita Ellen Lind titilinn. Fjórir drengir voru tilnefndir og hlutu hvatningarverðlaun; Aron Kristjánsson fyrir dans og þeir Jónatan Örn Sverrisson, Mikael Árni Friðriksson og Patrekur Unnarsson fyrir knattspyrnu. Að auki var Ungmennafélaginu Þrótti veitt sérstök viðurkenning fyrir góðan árangur meistaraflokks karla í knattspyrnu á árinu. 


Ellen Lind Ísaksdóttir sigraði í keppninni um sterkustu konu Íslands þriðja árið í röð sumarið 2021. Það afrek hefur aðeins einni konu tekist áður og verður spennandi að sjá hvort Ellen takist að slá metið árið 2022.

Unnar Ari Hansson var tilnefndur til íþróttamanns ársins. Unnar var einn af betri leikmönnum annarrar deildar og lék lykilhlutverk í sterku liði Þróttar sem vann sér sæti í fyrstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Unnar var einnig valinn í úrvalslið ársins í annarri deild sem er valið af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar. Þá var Unnar kosinn leikmaður ársins á lokahófi Þróttar í haust en að því kjöri komu leikmenn, stjórnarmenn og starfsteymi meistaraflokks. Unnar er 24 ára og frábær fyrirmynd í félaginu og leiðtogi. Hann er miðjumaður og kom til Þróttar frá Leikni Fáskrúðsfirði fyrir tímabilið. Unnar skoraði tvö mörk í 21 leik með Þrótti sumarið 2021. Hann framlengdi á dögunum samning sinn við Þrótt til þriggja ára.

Aron Kristinsson hlaut hvatningarverðlaun. Aron er fjórtán ára og hefur æft dans síðastliðin fimm ár í Danskompaníi. Hann æfir jazzballett, nútímadans, hip hop og commercial. Aron er mjög metnaðarfullur og hefur mikla ástríðu fyrir dansinum. Í febrúar tók hann þátt í undankeppni Dance World Cup sem fram fór í Borgarleikhúsinu og hlaut hópurinn hans gullverðlaun og sérstök dómaraverðlaun þar. Í ágúst keppti Aron svo ásamt sínum hópi fyrir hönd Íslands í Dance World Cup í Telford í Bretlandi og hlaut silfurverðlaun en vegna faraldurs þurfti hópurinn að senda inn atriði á myndbandi. 

Aron hefur vakið athygli erlendra kennara og hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Hann þykir mjög efnilegur dansari og er góð fyrirmynd, ekki síst fyrir aðra drengi sem því miður hafa ekki alltaf þor til að æfa dans.

Jónatan Sverrisson hlaut hvatningarverðlaun. Jónatan hóf sinn knattspyrnuferil hjá Þrótti en færði sig yfir til Njarðvíkur þegar hann kom í fjórða flokk. Seinustu þrjú ár hefur hann leikið fyrir Njarðvík og er í dag fastamaður í A-liði Njarðvíkur í þriðja flokki. Jónatan getur leikið á ýmsum stöðum á vellinum en hefur oftast verið notaður í vörninni. Hann hefur staðið sig frábærlega á árinu 2021, sýnir góða ástundun og er góður liðsfélagi að auki. Jónatan er frábær fyrirmynd annarra barna og unglinga í Vogum og jákvæðni hans og stuðningur við nærumhverfi er kemur að starfsemi UMFÞ er til mikillar fyrirmyndar þannig að eftir því er tekið.

Mikael Árni Friðriksson hlaut hvatningarverðlaun. Mikael er knattspyrnumaður sem hóf sinn ferili hjá Þrótti en hefur nú skipt yfir til nágrannanna í Njarðvík og leikur þar á miðjunni. Mikael er mikil fyrirmynd, sleppir ekki æfingu og sýnir góða hegðun og er duglegur innan vallar sem utan.

Patrekur Unnarsson hlaut hvatningarverðlaun. Patrekur er knattspyrnumaður se hóf sinn feril hjá Þrótti en hefur nú ásamt félögum sínum Jónatan og Mikael fært sig um set og er nú fastamaður í hjarta varnarinnar þannig að ljóst er að Njarðvíkingar eru vel mannaðir í vörninni um þessar mundir með tvo Vogamenn. Patrekur er með framúrskarandi ástundun og sýnir mikinn áhuga og hefur sýnt það innan vallar sem utan að hann er mikill liðsmaður.

Ungmennafélagið Þróttur hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir árangur meistaraflokks karla í knattspyrnu árið 2021. Þróttarar tryggðu sér eins og flestir vita sigur í annarri deild og leika því í fyrstu deild að ári í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Á myndinni eru frá vinstri: Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri UMFÞ, Patrekur Unnarsson, Ellen Lind Ísaksdóttir, Aron Kristinsson og Mikael Árni Friðriksson. Myndir: vogar.is