Elísabet í miklu metastuði
Flottur árangur náðist á Speedo-móti ÍRB í Vatnaveröldinni síðastliðinn laugardag. Mikill fjöldi var á mótinu og oft þröngt á þingi en 250 sundmenn voru skráðir til leiks og margir að stíga sín fyrstu skref í keppnissundi. Mót þetta hefur verið vinsælt í gegnum tíðina því það er eingöngu einn dagur þar sem sundmenn geta keppt í mörgum greinum og því er mótið bæði barn- og foreldravænt.
Elísabet Arnoddsdóttir náði frábærum árangri á mótinu þegar hún sló 28 ára gamalt aldursflokkamet í 100 metra flugsundi. Elísabet er í miklu metastuði þessa dagana en hún sló sextán ára gamalt aldursflokkamet meyja í 50 metra flugsundi á fyrsta sundmóti vetrarins, Ármannsmótinu, sem fór fram um þarsíðustu helgi.