Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Elías Már skoraði tvö í umspili um sæti í hollensku úrvalsdeildinni
Elías Már í búningi Excelsior en hann lék með félaginu frá 2018 til 2021.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 29. maí 2024 kl. 12:25

Elías Már skoraði tvö í umspili um sæti í hollensku úrvalsdeildinni

Keflvíkingurinn Elías Már Ómars­son lét til sín taka þegar Breda vann stórsigur á fyrrum samherjum hans í Excelsi­or (6:2) í gær. Elías byrjaði á bekknum hjá Breda en var skipt inn á í stöðunni 3:2 og Excelsior manni færri. Þetta var fyrri ­leikur liðanna í umspili um sæti í hollensku úrvalsdeildinni á næsta tíma­bili.

Breda skoraði opnunarmarkið á 12. mínútu en Excelsior jafnaði á þeirri 25. Breda fékk dæmda vítaspyrnu á 38. mínútu og þá fékk varnarmaður Excelsior að líta rauða spjaldið. Breda skoraði úr vítinu (39’) og bættu þriðja markinu við áður en fyrri hálfleik lauk (42’) en Excelsior fékk víti á 6. mínútu uppbótartíma og minnkaði munin í 3:2.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elíasi var skipt inn á í seinni hálfleik (67’) og skömmu síðar missti Excelsior annan mann af velli. Tveimur færri lenti Excelsior fljótlega tveimur mörkum undir (74’), staðan 4:2. Tíu mínútum eftir að Elías kom inn á skoraði hann fyrra mark sitt (78’) og það seinna kom undir lok leiks (90’+4).

Breda gekk brösuglega framan af á tímabilinu og endaði í áttunda sæti hollensku B-deildarinnar en í úrslitakeppninni hefur Elíasi og félögum gengið vonum framar. Seinni leikur Breda og Excelsior verður leikinn næstkomandi sunnudag og er óhætt að segja að Breda standi með pálmann í höndunum fyrir leikinn.