Elías Már skoraði í tapleik
Keflvíski framherjinn Elías Már Ómarsson, sem leikur með Excelsior í hollensku B-deildinni, kom liði sínu í 2:1 á útivelli gegn toppliði SC Cambuur þegar rúmur hálftími var til leiksloka – en það dugði ekki til.
Exelsior byrjaði leikinn betur og komst yfir á sjöttu mínútu en SC Cambuur náði að jafna á þeirri fjórtándu.
Í seinni hálfleik náði Exelsior aftur forystu með marki Elíasar Más en eftir markið tóku heimamenn öll völd í leiknum og röðuðu inn mörkunum. Þeir skoruðu sex mörk á síðustu þrjátíu mínútunum og lokatölur urðu 7:2 fyrir SC Cambuur sem situr í efsta sæti deildarinnar.
Elías Már og félagar mæta NEC í kvöld sem er í sjötta sæti hollensku B-deildarinnar en Exelsior situr í því ellefta.