Elías kjörinn efnilegastur í Pepsi-deildinni
Keflvíkingur efnilegastur annað árið í röð
Elías Már Ómarsson leikmaður Keflvíkinga var verðlaunaður í gær sem efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu, þegar KSÍ veitti verðlaun fyrir tímabilið sem var að ljúka.
Elías lék 23 leiki með Keflvíkingum í sumar og skoraði 6 mörk en hann vakti verðskuldaða athygli fyrir beinskeittan leik sinn. Svo vel lék Elías að hann vann sér inn sæti í U21 liði Íslands og vakti um leið athygli erlendra liða.
Elías fetar þar með í fótspor Arnórs Ingva Traustasonar, sem hlaut nafnbótina í fyrra eftir gott tímabil með Keflvíkingum. Arnór leikur sem kunnugt er með liði Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Elías Már er þessa dagana staddur í Noregi þar sem hann er til reynslu hjá Valerenga í norsku úrvalsdeildinni. Það eru leikmenn Pepsi-deildarinnar sem velja efnilegasta leikmann deildarinnar.
Elías og Arnór í leik með U21 liði Íslands á dögunum.