Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ekki pláss fyrir Bjarna í Keflavíkurmarkinu
Bjarni starfar í dag hjá Wisefish.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 13. nóvember 2023 kl. 06:30

Ekki pláss fyrir Bjarna í Keflavíkurmarkinu

Markvörðurinn Bjarni Sigurðsson átti farsælan feril í fótboltanum og vann marga titla með Skagamönnum á knattspyrnuvellinum. Var atvinnumaður í Noregi og nýtti tímann þar til að mennta sig.

„Ég skipti yfir í ÍA því það voru tveir Þorsteinar fyrir framan mig í Keflavíkurliðinu,“ segir Bjarni Sigurðsson en hann er líklega þekktastur sem knattspyrnumarkmaður.

Bjarni átti frábæran knattspyrnuferil, bæði hér á landi og í Noregi sem atvinnumaður og síðast en ekki síst spilaði hann 41 landsleik fyrir Íslands hönd. Kannski vita ekki allir að Bjarni er Keflvíkingur, ólst þar upp, æfði og spilaði upp alla yngri flokka með Keflavík en þar sem tveir öflugustu markmenn Íslands á þeim tíma voru fyrir framan hann í goggunarröðinni færði hann sig um set og hóf meistaraflokksferilinn með Skagamönnum, ÍA. Eftir sigursæl tímabil með ÍA gerðist hann atvinnumaður í Noregi og ákvað að nýta tækifærið og mennta sig í leiðinni. Hann er tölvunarfræðingur og hefur unnið við það síðan knattspyrnuferlinum lauk.

Bjarni við hlið Þorsteins Ólafssonar í fyrsta leik sínum með ÍA, einmitt á móti Keflvíkingum.

Bjarni á bara góðar minningar frá æskunni í Keflavík. „Ég er fæddur árið 1960 í Keflavík, gekk í skólann sem í dag er Myllubakkaskóli og útskrifaðist úr FS. Ég byrjaði snemma að æfa fótbolta og handbolta sem þá var nokkuð vinsæl íþróttagrein í Keflavík. Ég var vinstri skytta en í fótboltanum var mér strax hent í markið, ég gat ekkert í fótbolta svo það hentaði best að setja mig í markið. Ég er ekki viss um hvernig mér myndi reiða af í dag því fótboltinn hefur breyst svo mikið, nú er gerð miklu ríkari krafa á markmanninn að geta tekið þátt í uppspilinu en á þessum árum mátti markmaðurinn taka boltann með höndunum eftir sendingu frá samherja. Þegar ég kom upp í FS spilaði ég líka körfu, lék með mönnum eins og Axel Nikulássyni heitnum og mér er minnisstætt að honum var oft flogið í leiki frá Keflavík og í Reykjavík. Einar Dagbjartsson flugmaður var þá í FS og þetta hentaði, hann þurfti að safna flugtímum og skaust á milli með Axel. Fótboltinn var nú samt alltaf númer eitt hjá mér en þó ætlaði ég að hætta þegar ég var fimmtán ára gamall en þá fékk ég símhringingu frá Hólmberti Friðjónssyni sem þá var þjálfari meistaraflokks Keflavíkur. Það þurfti ekki miklar fortölur, ég byrjaði strax að æfa en þá skiptust nafnarnir Þorsteinn Ólafsson og Bjarnason á að verja markið svo það var ljóst að ég myndi ekki komast í liðið alveg strax en þetta var lærdómsríkur tími. Ég man að ég fékk séns í lok tímabils á móti Breiðabliki, gerði mistök og missti boltann undir mig en allir markmenn lenda í því. Ég æfði áfram með Keflavík næstu ár en árið 1979 urðu breytingar hjá mér.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Bjarni ungur byrjaður að leika sér með bolta og hans staða á knattspyrnuvellinum gat aldrei orðið önnur en staða markmanns.

Skagamenn skoruðu mörkin

Í leik árið 1979 í Litla bikarnum sem var æfingamót sem fram fór á vorin, gerðist það í leik Keflvíkinga á móti ÍA, að markmanni Skagamanna, Jón Þorbjörnssyni sinnaðist við liðsfélaga sína í vörninni. Hann tók af sér hanskana í miðjum leik og hætti! Hörður Helgason sem síðar átti eftir að þjálfa Skagamenn, fór í markið en þjálfari Skagamanna tók ekki í mál að Jón ætti afturkvæmt í liðið og spurði einn leikmanna ÍA hvort hann þekkti markmann og viðkomandi benti á Bjarna því þeir höfðu verið saman í átján ára landsliðinu. Fyrsta verkefni Bjarna með ÍA var ævintýraferð til Indónesíu. „Ég skipti strax yfir í ÍA, Steinarnir voru að verja markið í Keflavík svo ég sá að ég myndi ekki fá sénsinn fljótlega og því lá þetta beinast við. Ég fór með ÍA í þessa eftirminnilegu ferð sem kom til vegna þess að Pétur Pétursson var nýgenginn til liðs við Feyenoord í Hollandi frá ÍA og þeim stóð til boða að fara til Indónesíu en gátu ekki þekkst boðið og bentu á ÍA í staðinn.

Skagaliðið fyrir leik í ferðinni frægu til Indónesíu.

Ferðin gekk vel og ég sá að ég ætti góða möguleika á að verða aðalmarkmaður Skagamanna en Hörður Helga gerðist fljótlega aðstoðarþjálfari liðsins og átti síðan eftir að taka alfarið við. Fyrsti leikur okkar í Íslandsmótinu var einmitt á móti Keflavík, leikur sem endaði 0-0 og við Þorsteinn Ólafs taldir bestu leikmenn leiksins. Ég spilaði strax vel og var fljótlega valinn í A-landsliðshópinn og Skagaliðinu gekk nokkuð vel, við vorum alltaf í efri hlutanum og urðum síðan bikarmeistarar árið 1982 en ég reyndar missti af úrslitaleiknum vegna meiðsla. Þarna var Sigurður Jónsson, þá aðeins sextán ára gamall, kominn inn í liðið og hann gjörbreytti liðinu, ótrúlegur leikmaður! Hörður Helga  tók svo við liðinu fyrir ‘83 tímabilið og þá upphófst mikil sigurganga þar sem við unnum tvöfalt, tvö ár í röð. Unnum ÍBV í fyrri úrslitaleiknum og Fram í þeim seinni, lentum undir í báðum leikjum en við einfaldlega trúðum ekki að við gætum tapað. Þetta var ótrúlega sterkt lið og gaman að vera hluti af því en eftir þessa miklu sigurgöngu breyttist liðið mikið og við Siggi Jóns fórum í atvinnumennsku, hann til Englands en sjálfum bauðst mér að ganga til liðs við Brann í norsku úrvalsdeildinni,“ segir Bjarni.

Hið geysisigursæla lið Skagamanna eftir tvennuna 1984 en liðið vann líka tvöfalt árið 1983.
Bjarni var kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1984.

Mennt er máttur

Bjarni var næstu fjögur tímabilin í Noregi og þótt að um fulla atvinnumennsku væri að ræða, leiddist honum fljótt þófið og vildi nýta tímann til að mennta sig og lærði tölvunarfræði. „Þetta var skemmtilegur tími hjá Brann, við vorum nokkrir Íslendingarnir sem spiluðum á sama tíma með liðinu og um tíma þjálfaði Teitur Þórðarson okkur. Ólafur bróðir hans sem hafði spilað með mér með ÍA gekk til liðs við okkur og Sævar Jónsson úr Val og okkur gekk nokkuð vel án þess þó að vinna neina titla. Eftir smá tíma í atvinnumennskunni fann ég að ég vildi geta haft eitthvað fyrir stafni og fór því líka í skóla og lærði tölvunarfræði. Þegar ég var búinn að vera í fjögur tímabil í Noregi ákváðum við að flytja aftur heim og vissum að við vildum búa á höfuðborgarsvæðinu. Því kom í raun ekki til greina að halda áfram að spila með ÍA enda voru þeir með góðan markmann á þeim tíma, Birki Kristinsson. Ég hafði kynnst Þorgrími Þráinssyni vel í landsliðinu og hann hvatti mig til að ganga til liðs við Val. Okkur gekk mjög vel, unnum bikarinn t.d. þrjú ár í röð en okkur tókst ekki að landa Íslandsmeistaratitli. Eftir fimm tímabil hafði Brann samband og bað mig um að benda sér á markmann og ég bauðst til að taka eitt tímabil því ég átti eftir að klára námið og fór því út ´94 tímabilið. Ég tók því eitt tímabil í Noregi og gekk svo til liðs við Stjörnuna þegar ég kom heim og lék með þeim í tvö ár. Við fórum upp í efstu deild á fyrra tímabilinu mínu og héldum sæti okkar nokkuð örugglega en þá lagði ég hönskunum, árið 1996 þá orðinn 36 ára gamall. Ég byrjaði strax í markmannsþjálfun og það átti vel við mig. Ég þjálfaði markmenn Stjörnunnar, Fylkis, Víkings og svo var ég markmannsþjálfari landsliðsins þegar Ólafur Jóhannesson var landsliðsþjálfari. Það eru tíu ár síðan ég hætti þessu en finn að ég myndi hafa áhuga ef kallið kæmi aftur, ég hef sömuleiðis mikinn áhuga á greiningarvinnunni sem er orðinn svo stór hluti nútímaknattspyrnunnar, hún myndi eiga vel við mig.“

Bjarni í einum af 41 landsleikjum sínum ásamt fjölda Keflvíkinga. Lengst til vinstri er Guðni Kjartansson sem var aðstoðarlandsliðsþjálfari á þessum tíma, Ragnar heitinn Margeirsson er við hlið hans. Við hlið Bjarna er Þorsteinn Bjarnason og lengst til hægri er nuddarinn Þorsteinn Geirharðsson.

Starfsferillinn og áhugamálin

Bjarni réði sig strax í vinnu hjá Skýrr þegar hann sneri úr atvinnumennskunni í fyrra skiptið og var þar í tuttugu og eitt ár, var hjá Go Gothic sem er tölvuleikjafyrirtæki, vann hjá Íslandsbanka í ellefu ár, fór til Sidekick í tíu mánuði og er nýlega búinn að ráða sig í vinnu hjá Wisefish sem er hugbúnaðarfyrirtæki sem tengist sjávarútvegnum. „Þetta er hugbúnaður sem fylgist með frá þeim tíma sem skipið fer til veiða þar til búið er að selja fiskinn. Ég er búinn að vera þarna í fimm mánuði og lýst vel á mig. Ég á eiginkonu, Örnu Guðríði Skagfjörð, á með henni þrjú börn og það eru komin þrjú barnabörn. Áhugamálin tengjast ferðalögum og hreyfingu, ég bæði hleyp og geng á fjöll. Ég er búinn að heimsækja nokkur af sjö undrum veraldar, er búinn með fimm staði og á því tvo eftir. Ég er búinn að hlaupa fimm maraþon. Ég hef gaman af lestri góðra bóka, tónlist og mér finnst mjög gaman að fara á tónleika. Ég er að læra nudd, er langt kominn með það og svo finnst mér gaman að fara í Bíó Paradís, þar eru sýndar myndir sem flokkast ekki til þessara hefðbundnu kvikmynda, ég hef mjög gaman af því. Annars er markmiðið bara að halda áfram að hafa gaman af lífinu,“ sagði Bjarni að lokum.