Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ekki auðveld ákvörðun – segir Haraldur fyrirliði Keflavíkur
Miðvikudagur 31. ágúst 2011 kl. 12:42

Ekki auðveld ákvörðun – segir Haraldur fyrirliði Keflavíkur


„Það er auðvitað ekki skemmtilegt að fara frá Keflavík í þessari stöðu en ég varð að taka ákvörðun á mjög skömmum tíma áður en félagaskipaglugginn lokaði. Ákvörðunin var tekin í góðu samráði við forráðamenn Keflavíkur og ég vil þakka þeim fyrir að sýna málinu góðan skilning,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Pepsi deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu sem mun leika með Start í norsku úrvalsdeildinni fram að áramótum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Haraldur fór utan í nótt áleiðis til Noregs. Forráðamenn liðsins höfðu samband við fyrirliðann í gær og óskuðu eftir starfskröftum hans. Um er að ræða samning til áramóta. „Þetta er auðvitað ný áskorun og stærri deild og maður verður að grípa svona tækifæri á meðan maður hefur aldur og getu til en auðvitað var þetta ekki auðveld ákvörðun. Maður vonar auðvitað að Keflavík fara að hala inn fleiri stig,“ sagði Haraldur sem kom til Noregs í morgun. Hann mætir á fyrstu æfingu liðsins á morgun. Haraldur mun flytja einn til Noregs en fjölskyldan sem býr í Keflavík mun koma í heimsóknir til hans.

Start er í bullandi fallbaráttu, í næst neðsta sæti og Haraldur segist vona að hann komi til með að hjálpa liðinu og að það nái að forðast fall. Start er komið í undanúrslit í bikarkeppninni á móti Álasundi en þar lék Haraldur við góðan orðstý í fjögur ár, 2005 til 2009.

Í yfirlýsingu frá Keflavík í morgun segir:
„Fyrirliðinn okkar Haraldur Freyr Guðmundsson hefur gert starfslokasamning við Keflavík að eigin ósk og er farinn til Noregs. Haraldur gerði samning við Start fram að áramótum. Samkomulag var gert á milli knattspyrnudeildar og Haraldar um það að ef hann kemur heim til að spila knattspyrnu þá mun hann klæðast treyju Keflavíkur.“

Í yfirlýsingu frá Knattspyrnudeild Keflavíkur kemur einnig fram að ekki hafi verið haldinn krísufundur vegna framtíðar Willum Þ. Þórssonar, þjálfara liðsins í gær og að ekki sé búið að ákveða neitt í þjálfaramálum liðsins.