Ekkert rosalega sterkt varnareðli í mörgum leikmönnum
– Þróttur Vogum teflir fram mikið breyttu liði frá síðasta tímabili
„Við erum með þéttan hóp en höfum verið í smá meiðslavandræðum síðustu vikur. Þegar allir eru komnir til baka þá erum við með mjög sterkt lið,“ segir Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari Þróttar Vogum sem hafnaði í fjórða sæti annarrar deildar á síðasta ári. „Við teljum okkur geta barist í efri hlutanum og sjáum hvað er raunhæft að stefna að þegar líður á sumarið.“
Getum strítt öllum liðunum í deildinni
„Við höfum alls ekki séð öll liðin í deildinni og það eru rosalegar breytingar í deildinni – en miðað við þau lið sem við höfum séð þá tel ég okkur geta strítt öllum liðunum í deildinni, búið til leiki á móti öllum liðum.“
Jafnvel farið upp ef allt gengur upp?
„Já, ef allt gengur upp er það raunhæft en það er kannski svolítið fljótt að segja til um það. Ég renni svolítið blint í sjóinn þar sem leikmannahópurinn hjá okkur hefur breyst mikið, leikmannahópurinn hjá öðrum liðum hefur breyst rosalega mikið og á undirbúningstímanum í vetur höfum við bara spilað við eitt annarrar deildar lið. Það var á móti Víkingi Ólafsvík áður en þeir bjuggu til sitt lið í rauninni. Þannig að við erum að renna svolítið blint í sjóinn hvað styrkleikann varðar á móti hinum liðunum í deildinni. Við höfum verið ánægðir með þróunina hjá okkur en hvar við stöndum gagnvart hinum liðunum á eftir að koma í ljós en ég held að við séum á góðum stað.“
Gunnar segir að undirbúningstímabilið hjá Þrótti hafi gengið í bylgjum. „Fyrir jól voru menn fullrólegir í tíðinni að mínu mati og við voru svolítið að flakka á milli æfingastaða. Svo eftir jól náðum við að vera meira og minna á sama stað, í Safamýrinni, og við náðum betri takti í æfingarnar og hópurinn myndaðist. Það eru náttúrulega sautján leikmenn sem spiluðu í fyrra farnir frá Þrótti og eftir eru þrettán af þeim sem spiluðu eitthvað og tólf nýir leikmenn hafa bæst í hópinn, þannig að þetta eru rosalega miklar breytingar. Ég setti saman að gamni mínu að þeir sem eru í hópnum koma frá sextán mismunandi félögum. Þannig að þetta er mjög mismunandi uppeldi sem leikmenn hafa fengið.“
Hópurinn er orðinn skemmtilegur segir Gunnar og mikil stemmning búin að myndast. „Og við erum ekki ennþá farnir inn í Vogana en förum þangað núna eftir leikinn gegn Haukum. Þá fer hópurinn að þéttast almennilega. Það er tilhlökkun í hópnum“
Hvernig leggurðu sumarið upp, verður leikinn sóknarbolti eða hvað?
„Sko, til þess að ná árangri verður maður að byggja á vörninni og fókusinn verður settur á það til að byrja með. Segjandi það þá er ekkert rosalega sterkt varnareðli í mörgum leikmönnum í hópnum þannig að við verðum að skora svolítið af mörkum. Við verðum að verjast sem heild og sækja hratt – það er það sem við munum gera,“ sagði Gunnar að lokum.