Ekkert gengur hjá Grindvíkingum í 1. deild karla
Grindavík tapaði gegn Þrótti Reykjavík í 1. deild karla í gærkvöldi, 0-1.
Grindvíkingar voru mun betri aðilinn í leiknum og fengu fjölda færa sem að þeir nýttu illa. Óli Baldur Bjarnason fékk dauðafæri á 82. mínútu en lét verja frá sér. Þremur mínútum síðar skoruðu Þróttarar sigurmarkið þegar Viktor Jónsson lagði boltann framhjá Benóný Þórhallssyni.
Grindvíkingar sitja í 10. sæti 1. deildar karla með 4 stig og ljóst að liðið þarf að girða sig í brók ef botnbarátta á ekki að verða hlutskipti Grindvíkinga sem spáð var góðu gengi í sumar. Liðið hefur verið að spila ágætlega en markaþurrð virðist vera að plaga liðið.