Ekkert blóð, engin villa
Ljósanæturmót í „Streetball“ komið til þess að vera
Magnús Þór Gunnarsson man þá gömlu góðu daga þegar götukörfubolti, eða streetball eins og það nefnist á enskunni, blómstraði á Íslandi. Magnús og félagar hans í meistaraflokki Keflavíkur ætla að standa fyrir slíku móti um Ljósanótt þar sem leikið verður þrjá á þrjá.
Magnús ætlar sjálfur ekki að leika en hann býst við hörku á mótinu. „Þar er spilað upp á stoltið og eins og sagt er, „no blood, no foul,“ segir Magnús og hlær. Hann man eftir því að hafa tekið þátt í slíkum mótum á sínum yngri árum og rifjar upp hve sætt það hafi verið að vinna t.d. lið frá Njarðvík og fengið glæsileg verðlaun að auki. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir sigur í þessu móti og auk þess eru verðlaun fyrir besta nafn á liði.
Mótið fer fram fyrir framan Holtaskóla og ef veður verður ekki hagstætt þá verður farið inn í íþróttahúsið við Sunnubraut. Þrír aldursflokkar verða í mótinu og er leikið á eina körfu, þrír gegn þremur. Magnús segir mikilvægt að kynna þetta form körfubolta fyrir yngri kynslóðinni og ætlar hann sér að gera það. „Það þarf að sýna þessum krökkum myndir á borð við Above the Rim og White men can´t jump, þá skilja þau um hvað þetta snýst. Ég vona hins vegar að þetta mót sé komið til þess að vera,“ segir fyrirliði Keflvíkinga að lokum.
Mótið hefst klukkan 14:00 á föstudaginn 6. september. Skráning fer fram með því að hafa samband við Magnús eða Sævar Sævarsson, á póstföngin [email protected] eða [email protected].