Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eitt vinsælasta fjallahjólamótið
Laugardagur 24. júní 2023 kl. 06:31

Eitt vinsælasta fjallahjólamótið

Blue Lagoon Challenge haldið í 27. skiptið

Síðastliðinn laugardag var Blue Lagoon Challenge haldið í 27. skiptið. Á þriðja hundrað hjólreiðakappar tóku þátt en mótið er eitt vinsælasta fjallahjólamót landsins. Bláa lónið er aðalstyrktaraðili mótsins og bauð öllum þátttakendum upp á kjötsúpu og í lónið að móti loknu auk þess sem allir keppnendur voru verðlaunaðir með húðvörum Bláa lónsins. Þátttökugjald Blue Lagoon Challenge rennur til barna- og unglingastarfs Hjólreiðafélags Reykjavíkur og er mikilvægur liður í því að efla enn frekar ungt og upprennandi hjólreiðafólk.

„Stemmningin var einstök í mótinu og gleðin skein úr hverju andliti að keppni lokinni. Mjög fjölbreyttur hópur tók þátt en mismunandi vegalengdir voru í boði; 60 km leið, 30 km leið og líkt og í fyrra var einnig var boðið upp á rafhjólaflokk. Að keppni lokinni sameinuðumst allir í Bláa lóninu þar sem átökin liðu úr keppendum. Það er áskorun en ekki síður afrek að ljúka keppni en 60 kílómetra leiðin lá frá Völlunum í Hafnarfirði, um Djúpavatnsleið að Svartsengi í Grindavík og 30 kílómetra leiðin hófst við Krýsuvíkurkirkju og endaði á sama stað, við Bláa lónið,“ segir Þórdís Einarsdóttir, formaður HFR og mótsstjóri Blue Lagoon Challenge.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leiðin er malbikuð að hluta en einnig fer hún um grófan malarveg, um moldarslóða og sand. Heildarhækkun á leiðinni, ef farið er 60 km leið, er um 600 metrar og þar munar mest um Ísólfskálabrekkuna. Þegar þangað er komið er um 40 km lokið og því farið að síga í hjá allflestum.

Í fyrsta sæti í karlaflokki, af þeim sem fóru 60 km, var Ingvar Ómarsson á tímanum 1:50:52 og í kvennaflokki var það Hafdís Sigurðardóttir sem bar sigur af hólmi á tímanum 2:15:30. Í 30 km vegalengdinni var það Hjalti Böðvarsson sem sigraði karlaflokkinn á tímanum 1:30:56 og Anna Gína Aagestad sem sigraði í kvennaflokki á tímanum 1:40:13.

„Það er fátt betra en að taka á móti þátttakendum og smitast af gleði þeirra þegar þau koma yfir marklínuna og breytir þá engu hvort keppendur ná verðlaunasæti eða ekki, áfanginn er alltaf jafn einstakur. Það eru forréttindi að fá að upplifa stemmninguna í kringum þrautina sem og sjá hversu mikilvægu hlutverki þátttökugjald keppninnar gegnir í unglingastarfi Hjólreiðafélags Reykjavíkur en félagið hefur verið uppeldisfélag margra bestu hjólreiðamanna landsins.

Ég er einstaklega þakklát Bláa lóninu, keppendum og öllum öðrum sem komu beint eða óbeint að skipulagningu verkefnisins sem og okkar frábæru sjálfboðaliðum sem stóðu vaktina á laugardaginn. Án þeirra væri verður svona verkefni aldrei að veruleika.“ sagði Þórdís að lokum.