Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eitt mark getur dugað
Fimmtudagur 19. júlí 2007 kl. 15:34

Eitt mark getur dugað

Silfurlið dönsku úrvalsdeildarinnar, Midtjylland mætir Bikarmeisturum Keflavíkur á Keflavíkurvelli í kvöld kl. 19:15. Leikurinn er sá fyrsti hjá liðunum í undankeppni UEFA keppninnar í knattspyrnu. Fyrirfram eru Danirnir taldir mun sigurstranglegri en Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga er hvergi banginn en segir þó að sínir menn muni stíga varlega til jarðar í upphafi leiks.

 

„Midtjylland eru mjög sterkir og við verðum að passa boltann mjög vel á miðjunni og þar megum við ekki spila í mikið fleiri en 1-2 snertingum. Sóknarleikurinn hjá Dönunum er mjög góður og þeir fara mikið upp vængina og senda boltann vel fyrir markið, svona eins og á að spila fótbolta,“ sagði Kristján sem þó hefur fundið veikleikana hjá gestunum. „Þeir eru að púsla saman nýrri vörn fyrir leiktíðina hjá sér sem hefst eftir helgi og eru því ekki tilbúnir í öftustu varnarlínu. Ef við náum góðum sóknum eigum við góða möguleika á því að setja eitthvað á þá þar. Til þess að eiga möguleika á því að komast áfram í keppninni verðum við að vinna heimaleikinn, við þurfum ekki að vinna stórt og eitt mark getur dugað okkur,“ sagði Kristján.

 

Keflvíkingar eru vel þekktir fyrir skemmtilegan sóknarbolta hér heima við en gæti sá leikstíll komið þeim í koll gegn jafn sterku liði og Midtjylland? „Ef leikurinn verður mjög opinn gæti það komið okkur í koll en við munum stíga varlega til jarðar í byrjun leiks og sjá hvernig Danirnir eru. Þeir koma örugglega til með að pressa okkur stíft og reyna að vinna boltann af okkur eins fljótt og auðið er.“

 

Óvíst er hvort fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson verði með í kvöld en hann hefur verið að glíma við nárameiðsli. Þá hefur Magnús Þorsteinsson ekki heldur náð sér að fullu eftir sín meiðsli en Kristján segir að Keflavík þurfu á öllum sínum sterkustu mönnum að halda til þess að leggja Midtjylland að velli. „Ef Jónas getur ekki verið með í kvöld munum við ekki taka neina óþarfa áhættu með hann.“

 

Tveir leikmenn hjá Keflvíkurliðinu hafa verið á mála hjá Midtjylland, þeir Nicolai Jörgensen og Guðmundur Viðar Mete. Nicolai sagði við Víkurfréttir að Keflvíkingar þyrftu að hafa góðar gætur á Mikkel Thygesen sem er lúrir milli miðju og sóknar. Jörgensen lék í fimm ár með Midtjylland og kvaðst spenntur að mæta sínum gömlu félögum en viðurkenndi þó að ærinn starfi biði Keflvíkinga.

 

[email protected]

 

VF-mynd/ Kristján Guðmundsson og Kristinn Guðbrandsson, þjálfarar Keflavíkurliðsins á æfingu síðastliðið þriðjudagskvöld.

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024