Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eins og gömul dísilvél
Sunnudagur 23. október 2011 kl. 12:12

Eins og gömul dísilvél

Kristjana H. Gunnarsdóttir er ein af hraustari konum Suðurnesja, ef ekki sú allra hraustasta. Ef marka má keppni í Þrekmeistaranum sem haldin var nú um síðustu helgi þar sem Kristjana, eða Kiddý eins og hún er jafnan kölluð, hampaði sigri í þremur flokkum: Í flokki einstaklinga 39 ára og eldri, hópakeppni 39 ára og eldri og í parakeppni 39 ára og eldri, en Kiddý er 40 ára gömul.

Kiddý hefur verið að keppa í Þrekmeistaranum allar götur síðan 2001 en þá keppti hún í hóp ásamt fleiri konum. Árið 2004 fer hún svo í einstaklingskeppni og hún hefur sigrað í einstaklingskeppninni síðan árið 2005.

Á árum áður var Kiddý markmaður í handbolta en hún hætti árið 1993 þegar handboltinn lagðist út af hjá Keflavík en Kiddý hóf þó ferilinn hjá Reyni Sandgerði. „Ætli ég hafi ekki verið 12 ára þegar handboltinn hætti hjá Reyni, þá fór maður í Keflavík.“

Kiddý skynjar sjálfa sig dálítið sem gamlan ref í bransanum og jafnvel gæti verið að hún sé búin að ryðja veginn fyrir margar yngri stelpur sem hafa kannski ekki trú á því að þær geti náð árangri í íþróttum, en Kiddý segist sjálf ekkert hafa verið framúrskarandi íþróttamaður á sínum yngri árum. „Ég var ekki góður hlaupari. Ég var alltaf síðust í hlaupum þegar ég var í handboltanum, mér fannst enginn tilgangur í því að markmaðurinn ætti að vera að hlaupa svona mikið. Svo varð bara viðsnúningur á því og nú sting ég þessar stelpur af í hlaupunum,“ en Kiddý segist vera meira í langhlaupunum frekar en spretthlaupum. „Margir segja að ég sé eins og dísilvél, þegar ég fer í gang þá get ég dugað ansi lengi,“ sagði þessi mikla íþróttakona en nánara viðtal verður birt við Kiddý í Víkurfréttum á næstunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024