Einn efnilegasti leikmaður Færeyja til Keflavíkur
Framherjinn Simon Samuelsson er búinn að skrifa undir hjá Keflavík til næstu þriggja ára. Simon er fæddur 1985 og hefur þegar spilað A-landsleiki í Færeyjum. Hann er einn efnilegasti leikmaður sem komið hefur fram í Færeyjum og var búinn að vekja athygli hjá fleiri liðum á Norðurlöndum, en það var einlægur vilji hans að spila í Keflavík. Simon er sterk viðbót í framlínu Keflavíkur og á örugglega eftir að styrkja hópinn til muna.
„Hann á eftir að styrkja okkur í lokaátökunum í deildinni í sumar og góð viðbót við Hörð og Guðmund þar sem Stefán Örn er enn þá meiddur,“ sagði Kristján þjálfari Keflavíkur í samtali við Guðjón Guðmundsson á Bylgjunni í dag.