Einn efnilegasti Keflvíkingurinn til Njarðvíkur
Hinn sautján ára gamli körfuboltamaður, Arnór Sveinsson úr Keflavík, hefur fært sig yfir til nágrannaliðsins Njarðvíkur í Domino’s deildinni í körfubolta. Karfan.is greinir frá.
Arnór er alinn upp hjá Keflavík og þótti snemma gríðarlega efnilegur. Hann hefur leikið með meistaraflokki Keflavíkur frá árinu 2016, en hefur aðeins tekið þátt í 7 leikjum á þessu tímabili. Leikmaðurinn hefur verið hluti af bæði undir 16 ára liði Íslands og nú síðast undir 18 ára liðinu síðastliðið sumar, þar sem hann skoraði 9 stig og tók 3 fráköst að meðaltali í leik á Evrópumótinu í Eistlandi.