Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Einn af þessum dögum
Natasha er hér að skora mark sitt gegn Tindastóli en það dugði ekki til og fyrsti tapleikurinn í Lengjudeildinni staðreynd.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 27. ágúst 2020 kl. 16:04

Einn af þessum dögum

en við ætlum að vinna deildina

Natasha Anasi, fyrirliði kvennaliðs Keflavíkur, ætlar að vinna Lengjudeildina þrátt fyrir tap gegn Tindastóli í síðustu umferð. Keflavík fékk víti í stöðunni 1:0 en markvörður Tindastóls gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna og Stólarnir brunuðu upp og skoruðu.

„Það hefði verið sætt að vinna leikinn gegn Tindastóli og vera í efsta sæti en við erum í góðum málum og höfum náð að koma okkur í góða stöðu. Við settum okkur það markmið að vinna deildina og stefnum ennþá á það, það er nóg eftir af leikjum til að það takist.“

– Svekkjandi að misnota víti og svo skora þær strax í kjölfarið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já en svona er fótboltinn stundum. Mér fannst við eiga ágætan leik, við héldum boltanum ágætlega en það er eitthvað sem við höfum verið að vinna í. Þetta var bara einn af þessum dögum, þær kláruðu sín færi og því fór sem fór. Við lærum af þessu.“

– Þið voruð að bæta við ykkur leikmanni, hvernig kemur hún út?

„Hún þurfti auðvitað að klára sóttkví svo við höfum ekki fengið mikið tækifæri til að kynnast henni. Hún kom nánast beint í leikinn og svo er stutt í þann næsta. Við höfum aðeins náð að spjalla við hana á æfingum og hún virðist vera viðkunnanleg og góð manneskja. Það var fínt að sjá til hennar í leiknum og hún kom ágætlega út í honum – ég held að hún eigi eftir að styrkja liðið.

Næsti leikur er svo útileikur á móti Augnabliki. Mér finnst gott að það sé svona stutt á milli leikja því þá hefur maður ekki tækifæri til að velta sér upp úr úrslitum síðasta leiks. Maður þarf að einbeita sér að þeim næsta – taka einn leikur í einu og svo sjáum við hvað setur.“