Einkaþjálfarar hjá Stúdíói Huldu
Gunnlaugur Kárason hefur einnig nýhafið störf sem einkaþjálfari hjá Stúdíói Huldu. Hann er íþróttakennari að mennt og útskrifaðist frá Íþróttakennaraskólanum á Laugavatni vorið 1998. Undanfarin tvö ár hefur hann kennt íþróttir við Holtaskóla en sjálfur hefur hann stundað ýmsar íþróttir frá því hann man eftir sér.„Á meðan ég var í íþróttakennaraskólanum tók ég námskeið um einkaþjálfun og við unnum mikið í tækjasal. Íþróttakennarar eru að mínu mati gríðarlega vel undirbúnir fyrir slíka þjálfun“, segir Gunnlaugur og aðspurður segist hann jafnvel ætla að sérhæfa sig frekar á þessu sviði í framtíðinni.Gunnlaugur segir að Stúdíó Huldu sé einstök líkamræktarstöð að því leyti að hún er stöð fólksins. „Hér eru engir kraftabolar og við erum aðallega að fara í gegnum almenna líkamsþjálfun með fólki. Við bjóðum uppá líkamsrækt fyrir venjulegt fólk; eldri sem yngri, konur og karla. Ég hef stundum rekið mig á að það eru margir sem vita ekki að hér er glæsilegur tækjasalur með öllum þeim tækjum sem þörf er á. Einnig höfum við bætt við okkur tveimur þrektækjum sem heita Cross Trainer, en þau eru gífurlega vinsæl innan stöðvarinnar. Þessi tæki valda engu álagi, hvorki á hné né bak og gefa mjög mikla brennslu“, segir Gunnlaugur og þar með er sá misskilningur leiðréttur. Gunnlaugur er þegar kominn með nokkra einstaklinga til sín í einkaþjálfun og segir að fólki finnist mjög gott að geta leitað til ákveðins aðila og fengið leiðbeiningar. „Áhuginn fyrir því að fólk vilji fá einkaþjálfun fer ört vaxandi. Fólk sem kemur í einkaþjálfun fær matardagbók sem við förum reglulega yfir og æfingakerfi sem við setjum upp fyrir hvern og einn. Við veitum fólki mikið aðhald og það liggur við að við hringjum í það ef það gleymir að mæta“, segir Gunnlaugur og brosir.Ingi Gunnar Ólafsson er að ljúka einkaþjálfaranámi hjá FIA einkaþjálfaraskólanum, sem rekinn er af Jónínu Benediktsdóttur líkamsræktarfrömuði. Ingi Gunnar hefur unnið sem leiðbeinandi hjá Stúdíói Huldu síðan í september á síðasta ári en hefur sjálfur stundað líkamsrækt með góðum árangri s.l tvö ár. „Upphaflega kom ég til Huldu því ég vildi grenna mig og koma mér í betra form. Ég missti 43 kíló og síðan hef ég verið að byggja upp vöðvamassa. Ég var búin að vera sex ár á leiðinni að koma mér af stað í líkamsrækt og hugsaði alltaf ég byrja bara um næstu mánaðarmót, spurningin var bara hvaða mánaðarmót það yrðu. Fljótlega sá ég að þessi hugsunarháttur gengi ekki lengur og ég yrði að byrja strax. Loksins tók ég þetta stóra skref að byrja og ég sé ekki eftir því í dag. Ég skil því alveg þá aðstöðu sem fólk er í því ég hef gengið í gegnum þetta allt saman sjálfur. Það er ekki aðalmálið að vera með einhvern ofurkropp heldur að líða vel og vera sáttari við sjálfan sig“, segir Ingi Gunnar með áherslu. Ingi Gunnar segir að fólkið sem komi til hans hafi mjög ólík markmið og því sé nauðsynlegt að búa til kerfi eftir þörfum hvers og eins. „Þegar fólk fer að stunda reglubundna líkamsrækt þá fer það að njóta sín miklu betur í daglegu amstri. Ég tel aðalatriðið vera að fólk byrji að hreyfa sig. Hér hjá okkur í Stúdíói Huldu er andrúmsloftið mjög gott og heimilislegt og fólki hér finnst það vera hluti af stöðinni þegar það kemur hingað inn. Allir leiðbeinendurnir hér hafa sérfræðimenntun á sviði líkamsræktar og leggja sig fram við að láta viðskiptavinunum líða sem best og að þeir nái sínum markmiðum“, segir Ingi Gunnar.