Einkaþjálfaranám í Íþróttaakademíunni
Þann 11. september n.k. hefst 9 mánaða langt einkaþjálfaranám í Íþróttaakademíunni. Námið er hugsað samhliða starfi og kennt verður 3 x í viku, fjóra tíma í senn.
Einkaþjálfaranámið er ætlað þeim sem annars vegar vilja verða „sinn eigin einkaþjálfari“ og koma sér í gott form samhliða því að læra og hins vegar fyrir þá sem vilja miðla og kenna öðrum og gera einkaþjálfun að sínu starfi. Einnig kemur þetta nám sér vel, þeim sem þegar starfa sem einkaþjálfarar því farið verður djúpt í þá þætti sem kenndir verða auk allra þátta sem nauðsynlegt er að kunna skil á til þess að starfa sem einkaþjálfari. Þeir þættir sem kenndir verða eru næringarfræði, lífeðlisfræði, líffærafræði, þjálffræði, samskiptatækni, uppsetning og hönnun æfingaseðils, þol – og styrktarþjálfun, sálfræði og mælingar.
Í byrjun námsins setur hver einstaklingur sér persónuleg markmið sem hann ætlar sér að ná á þessum 9 mánuðum hvort sem það er að létta sig, styrkja eða eitthvað annað. Allir fá æfingarprógram og næringarlega ráðgjöf frá kennurum í byrjun námsins. Einnig fara allir í fitu-, ummáls-, og blóðþrýstingsmælingu ásamt þol og þrekprófi. Allar mælingar verða svo teknar á 6 vikna fresti ásamt því sem sett verður upp nýtt æfingarprógram og farið yfir matardagbók einstaklinga. Á þessu 9 mánuðum mun hver einstaklingur læra að setja upp æfingar- og næringarprógram fyrir hinar ýmsu íþróttagreinar og einstaklinga með misjöfn markmið í huga.
Allir kennararnir eru Master og/eða doktorsmenntaðir auk þess að vera með mikinn íþróttalegan bakgrunn og mikla og haldgóða reynslu af heilsurækt.
Viðkomandi mun útskrifast að loknu lokaprófi í vor sem löggildur IAK-einkaþjálfari.
Nánari upplýsingar um einkaþjálfaranámið hér. http://www.akademian.is/Desktopdefault.aspx/tabid-11/