Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Eini Suðurnesjaslagurinn þetta árið
Viðureignir liðanna hafa jafnan verið fjörugar.
Laugardagur 17. maí 2014 kl. 12:18

Eini Suðurnesjaslagurinn þetta árið

Njarðvík tekur á móti Reynismönnum

Njarðvíkingar taka á móti grönnum sínum frá Sandgerði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, laugardag. Liðin hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár í deildinni en jafnan eru leikir liðanna mikil skemmtun þar sem boðið er upp á nóg af mörkum. Miklar mannabreytingar hafa orðið á báðum liðum og eru ungir og efnilegir þjálfarar hjá liðunum að stíga sín fyrstu skref í þjálfun. Guðmundur Steinarsson kom sem kunnugt er frá Keflvíkingum yfir til þeirra grænklæddu í fyrra en hann hefur nú tekið við þjálfun liðsins. Guðmundur segir Njarðvíkinga koma vel undan vetri en liðið er að mestu leyti skipað ungum og sprækum leikmönnum. „Ég ber traust til þessara ungu stráka. Okkar stærsta verkefni er að ná stöðugleika. Ég horfi ekkert sérstaklega í aldurinn en leikmenn eru að fá tækifæri vegna getu sinnar. Við Ómar (Jóhannsson) erum mjög sáttir við okkar leikmannahóp í dag.“

Guðmundur býst við jafnri deild en flest liðin eru að upplifa miklar mannabreytingar. Hann telur að þrjú lið séu líklegust til þess að berjast á toppnum en önnur verði að ná að stilla sig saman hið fyrsta og byrja að hala inn stigum. Þjálfarinn er vongóður fyrir viðureignina gegn Sandgerðingum. „Þeir eru í svipuðum sporum og við. Miklar breytingar og nýr þjálfari. Það er gaman að spila á móti þeim. Þetta eru leikir sem gefa sumrinu lit enda líklega flestir sem mæta á þetta litla Suðurnesja-derby,“ segir Guðmundur en leikir liðanna hafa verið augnakonfekt og mikið skorað. „Egill hjá Reyni er nú gamall sóknarmaður að upplagi. Eigum við því ekki að segja að von sé á sóknarbolta og mörkum á laugardaginn,“ segir Guðmundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reynismenn taka einn leik í einu

Egill Atlason tók við stjórnartaumunum hjá Reynismönnum eftir að faðir hans Atli Eðvaldsson lét af störfum. Miklar breytingar hafa verið á hópnum og eru Sandgerðingar í yngri kantinum líkt og Njarðvíkingar þetta sumarið. „Samkeppnin um stöður er mikil sem er jákvætt.“ Egill segir að þetta sumar verði áhugavert og ekki verði farið af stað með miklar yfirlýsingar. Egill þekkir ágætlega til Njarðvíkinga en hann telur þá til alls líklega. „Það kom mér í raun á óvart að þeim hafi ekki verið spáð ofar í deildinni. Þeir hafa verið að fá til sín sterka leikmenn. Gummi er heilmikill refur og það verður gaman að fylgjast með þeim í sumar.“ Egill var að þjálfa 4. deildarlið KB í fyrra en hann er 32 ár gamall. Egill er lunkinn leikmaður en hann á að baki langan feril þar sem hann lék lengst af með Víkingum R. „Ég er með takkaskóna reimaða á öllum æfingum og er klár í slaginn á meðan ég er ekki sleginn út úr liðinu,“ segir Egill. Sú hugmynd kom upp að hann myndi koma inn sem spilandi þjálfari eftir að faðir hans hætti. „Svo þurfti að ræða ýmislegt. Það er heilmikil vinna hérna framundan. Það er auðvelt að hugsa um bara næsta tímabil en það verður að passa að hafa fókusinn í lagi og hugsa til framtíðar. Það þarf að vera þannig að allir séu að keppa að sömu verðlaunum,“ segir Egill sem lofar aðstöðuna í Sandgerði í hástert. Hann vill síður vera með yfirlýsingar viðureignina gegn Njarðvík en ætlar sér að sjálfsögðu að sækja þrjú stig.

„Maður fer í hvern einasta leik til þess að vinna hann. Þeir sem halda öðru fram eru einfaldlega að blekkja sig. Við pössum okkur þó að fara ekki framúr okkur. Við hugsum bara um næsta leik og hvernig skal nálgast hann.“ Leikur Njarðvíkinga og Reynismanna fer fram í Njarðvík og hefst klukkan 14:00 í dag.