Einar Valur er Íþróttamaður Voga árið 2009
Einar Valur Árnason knattspyrnumaður með Ungmennafélagi Njarðvíkur hefur verið kjörinn Íþróttamaður Voga árið 2009 af Frístunda- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Voga. Kjörinu var lýst samhliða aðalfundi Umf. Þróttar í Vogum sem fór fram miðvikudaginn 14. apríl sl.
Einar Valur var einn af burðarásum Njarðvíkurliðsins sem lenti í öðru sæti í 2. deildinni árið 2009 og tryggði sér þar með sæti í 1. deildinni.
Hann var eins og klettur í miðju varnar Njarðvíkurliðsins allt sumarið og spilaði alla leiki liðsins á Íslandsmótinu, alls 22 að tölu. Þess má geta að Njarðvíkurliðið fékk langfæst mörk á sig af öllum liðum deildarinnar.
Einar Valur var valinn besti leikmaður Njarðvíkurliðsins á lokahófi knattspyrnudeildar UMFN í fyrra og þá var hann einnig valinn í lið ársins hjá heimasíðunni fotbolti.net.
Einar Valur Árnason er því vel að því kominn að bera sæmdartitilinn Íþróttamaður Voga árið 2009 enda er hann frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk í sveitarfélaginu, segir í tilkynningu frá Vogum.