Einar Orri frá Keflavík? Samningaviðræður í frosti
„Ég er opinn fyrir öllu. Auðvitað er maður Keflvíkingur en stundum er líka ágætt að prufa eitthvað annað,“ sagði Keflvíkingurinn Einar Orri Einarsson við Fótbolta.net en hann gæti verið á förum frá bítlabæjarliðinu eftir að hafa spilað með liðinu allan sinn feril.
Einar Orri, sem er 26 ára og hefur leikið í vörn og á miðjunni hjá Keflavík, varð samningslaus í síðasta mánuði og viðræður um nýjan samning hafa gengið illa.
„Það gengur illa að semja. Eins og staðan er núna eru samningaviðræður strand,“ sagði Einar Orri við Fótbolta.net í dag.
„Ég er með öðruvísi sýn á þetta en stjórnin. Það er stundum þannig í samningaviðræðum þannig að þetta var aðeins sett í frysti. Það er ekkert útilokað að það náist samningar en það er ekkert í gangi núna.“
Einar Orri hefur skorað sjö mörk í 142 deildar og bikarleikjum með Keflavík en hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2005.