Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Einar og Arnór Daði teknir við liði Þróttar Vogum
Stjórnarmenn Þróttar með nýjum þjálfurum liðsins. Þar sem ekki var hægt að æfa á Suðurnesjum á mánudag fór æfingin fram í Kópavogi.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 14. febrúar 2024 kl. 13:03

Einar og Arnór Daði teknir við liði Þróttar Vogum

Einar Einarsson og Arnór Daði Jónsson hafa tekið við stjórn meistaraflokks Þróttar í körfuknattleik og stjórnuðu sinni fyrstu æfingu á mánudagskvöld.

Einar spilaði fyrir Keflavík, Tindastól og ÍA á sínum leikmannaferli og hefur víða komið við á sínum þjálfaraferli, gerði m.a. Grindavík að bikarmeisturum 2006. Einnig hefur Einar þjálfað Keflavík og Hauka í meistaraflokki. Arnór Daði Jónsson, sem hefur verið aðstoðarþjálfari fráfarandi þjálfara, verður annar aðalþjálfari liðsins með Einari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsti leikur Þróttar undir stjórna nýrra þjálfara verður í kvöld þegar Þróttur fer austur fyrir fjall og mætir Selfossi kl. 18:30. Þróttur er sem stendur í sjötta sæti fyrstu deildar en Selfoss í því tíunda.

Arnór Daði þjálfar einnig stúlknaflokka hjá Keflavík.

„Er ungur og ákafur“

Arnór Daði Jónsson  er af mörgum talinn einn efnilegasti þjálfari landsins. Hann þjálfar sjöunda til tíunda flokk stúlkna hjá Keflavík og mun halda því áfram samhliða þjálfuninni hjá Þrótti. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Arnórs Daða.

Arnór hefur verið Guðmundi Inga Skúlasyni til aðstoðar í vetur en hvernig líst honum á að taka við liðinu?

„Mér líst bara vel á það. Ég er búinn að vera að aðstoða Mumma á bekknum í leikjum en ekkert verið á æfingum með liðinu, þannig að ég þekki hópinn ágætlega.“

Það er ekki hægt að neita því að þessi tíðindi koma á óvart enda hefur Þrótturum vegnað vel undir stjórn Mumma.

„Já, hann er búinn að gera frábæra hluti með liðið og það verður ekki af honum tekið. Stjórnin hefur séð einhverja ástæðu fyrir þessum breytingum en ég er ekkert að spá í það, ég mun bara einbeita mér að verkefninu sem er framundan,“ segir Arnór Daði.

Sérðu fyrir þér einhverjar áherslubreytingar á leik Þróttar?

„Það er stutt í úrslitakeppnina svo við höfum ekki tíma til að fara í neinar róttækar breytingar, það verða þó alltaf einhverjar áherslubreytingar með nýjum þjálfurum. Einar kemur með gríðarlega reynslu og þekkingu á leiknum inn í þjálfunina og svo er ég ungur og ákafur – þetta er fín blanda held ég.“

Þú átt nú ekki langt að sækja þjálfaragenin, heldurðu að þú eigir ekki eftir að leita í gagnabanka pabba þíns [Jóns Halldórs Eðvaldssonar]?

„Jú, það er gott að geta leitað til hans og hann er óspar á ráðin. Ég hef verið duglegur að gera það samhliða þjálfun minni hjá Keflavík, núna er ég hins vegar að fara að þjálfa í Vogum með öðrum reynslubolta. Einar er mjög sigursæll þjálfari og ég mun nýta mér reynslubankann hans til fulls þar.“

Þróttur hefur verið á hraðri uppleið í körfunni, hefur farið úr þriðju deild upp í þá fyrstu á tveimur tímabilum og er núna um miðja deild. Er Þróttur að tryggja sig í sessi sem enn eitt afreksliðið í körfunni á Suðurnesjum?

„Það er alla vega vilji til þess. Það er búið að vinna mjög metnaðarfullt starf hérna og metnaðurinn er mikill hjá stjórninni. Hvort við Einar höldum áfram með liðið kemur í ljós, við verður út tímabilið til að byrja með og tökum svo stöðuna,“ sagði nýráðinn þjálfari meistaraflokks Þróttar í körfuknattleik, Arnór Daði Jónsson.