Einar Árni: Hrikalega ánægjulegt
,,Við töpuðum báðum leikjunum gegn þeim í fyrra, fyrir okkur að koma á einn erfiðasta útivöll landsins þar sem er brjáluð stemmning og mikið fjör og ná í sigur sýnir stórt hjarta, karakter og baráttu," sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga eftir sigur í framlengdum leik í Þorlákshöfn. Lokatölur voru 82-84 Njarðvík í vil.
"Við vissum að þetta yrði erfitt verkefni og þetta var ekki áferðafagurt enda vorum við með slaka skotnýtingu. Að vera einhverjum 19 stigum undir á tíma og ná í sigur er hrikalega ánægjulegt," sagði Einar en gátu Njarðvíkingar leyft sér að vonast eftir þessari óskabyrjun?
"Ég væri að ljúga ef ég segði að við ætluðum ekki að fara í Þorlákshöfn og vinna, það var alltaf markmið okkar í undirbúningnum. Það var alveg skýrt að við ætluðum okkur að ná í góðan sigur og ég bað menn að velta því fyrir sér hversu ljúft það væri að fara þarna og ná í sigur og halda þannig inn í mótið með sigurleik."
Sigur Njarðvíkinga er kannski eitthvað sem gæti hafa komið á óvart líkt og sigur Fjölnis á KR í gær en mörgum hefur orðið tíðrætt um að deildin verði afar jöfn þessa vertíðina, Einar er á þeim nótum:
"Við sáum það í gær að það getur ýmislegt gerst, það geta allir unnið alla. Við höfðum fulla trú á því að við gætum unnið þennan leik í kvöld og það kannski vottar aðeins fyrir styrk okkar. Leikur okkar var þó langt frá því sem við viljum standa fyrir en sigur hafðist. Deildin verður barningur út í eitt og verður meira og minna bara járn í járn," sagði Einar sem fer í fjóra útileiki með Njarðvík fyrstu sex umferðirnar.
"Við gerðum enga dúndurhluti á útivelli á síðustu leiktíð, við unnum helst heima en ef við ætlum að gera alvöru hluti í þessari deild verðum við líka að vinna útileiki og sigurinn í kvöld gefur mönnum sjálfstraust fyrir fimmtudaginn."
Heimild: www.karfan.is