Einar Árni: Höfum fulla trú á þessu verkefni
Komið er að úrslitastund í
Víkurfréttir settu sig í samband við Einar Árna Jóhannsson, þjálfara Njarðvíkinga, en Einar segir leik kvöldsins vera verðugt verkefni og að liðið treysti á góðan stuðning úr stúkunni í kvöld.
,,Ég hef fulla trú á því að leikur þrjú sé kominn úr mönnum og þeir einbeittir fyrir verkefni kvöldsins. Við fórum yfir það sem aflaga fór í síðasta leik en það er enginn tími til þess að vera að velta síðasta leik of mikið fyrir sér. Menn verða núna að trúa á sjálfa sig, framkvæma hlutina og hugsa ekki of mikið,” sagði Einar en í síðustu tveimur leikjum liðanna hafa Njarðvíkingar ekki náð að halda dampi á síðustu mínútum leikjanna. ,,Nú er lag að klára 40 mínútur og við höfum talað um það fyrir síðustu tvo leiki og nú er bara að standa við það.”
Von er á fjölmenni í DHL-Höllina í kvöld og segir Einar að heimavöllurinn hafi til þessa ekki verið heilagur í úrslitakeppninni. ,,Við höfum fulla trú á þessu verkefni okkar og hlökkum til að mæta í troðfullt íþróttahús KR í kvöld og ætlum að njóta þess að spila skemmtilegan körfubolta. Það er virkilega verðugt verkefni að fara vestur í bæ og við ætlum okkur að sjálfsögðu að knýja fram oddaleik og treystum á góðan stuðning í kvöld,” sagði Einar Árni.