Einar Árni áfram yfirþjálfari yngri flokka
Búinn að vera tæp 20 í þjálfun hjá Njarðvík
Unglingaráð Körfuknattleiksdeildar UMFN og Einar Árni Jóhannsson hafa framlengt samning þess efnis að Einar Árni verði áfram yfirþjálfari yngri flokka félagsins. Einar Árni samdi til fimm ára og gildir því nýi samningurinn til vors 2019. Frá þessu er greint á heimasíðu Njarðvíkinga en þar er birt viðtal við Einar sem hefur starfað hjá félaginu í næstum 20 ár.
Einar segir þar að í rauninni hafi ekki komið til greina að færa sig um set og þjálfa áfram í meistaraflokki. „Mér líður ofboðslega vel í Njarðvík og staðreyndin er sú að þegar ég kom til baka 2009 þá var það hugsað á þeim nótum að einbeita sér að yngri flokkunum. Það ferli tók óvænta beygju í janúar 2011 þegar við Friðrik Pétur tókum við meistaraflokki karla. Með þessu skrefi gefst einfaldlega meiri tími til að sinna mikilvægum verkefnum í barna- og unglingastarfinu enda meistaraflokksþjálfun mjög tímafrek samhliða.“ Einar hefur starfað í þjálfun í 20 ár en hann staldraði stutt við hjá Breiðablik fyrir nokkru síðan. Annars hefur hann starfað hjá uppeldisfélaginu Njarðvík.
„Fyrsti veturinn minn var 1993-1994 en þá var ég aðstoðarþjálfari í minnibolta karla hluta úr vetri, og ég þjálfaði minn fyrsta flokk frá hausti 1994. Það þýðir að ég er að klára mitt tuttugasta ár í þjálfun núna, og nítján þeirra hef ég þjálfað hjá UMFN, en ég var veturna 2007-2008 og 2008-2009 hjá Breiðablik en síðari veturinn var ég reyndar einnig með morgunæfingar og minnibolta 8-9 ára hjá UMFN. Svo næsti vetur er sögulegur að því leytinu til að það verður minn tuttugasti vetur í starfi hjá Unglingaráði KKD UMFN,“ sagði þjálfarinn þaulreyndi en viðtalið má sjá í heild sinni hér.