Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Einar Árni: Ætlum svo sannarlega ekki í sumarfrí
Elvar Már Friðriksson hefur leikið frábærlega á þessari leiktíð. Mynd/Karfan.is
Fimmtudagur 28. mars 2013 kl. 15:49

Einar Árni: Ætlum svo sannarlega ekki í sumarfrí

„Við erum fyrst og fremst sáttir með að hafa farið með þetta í þrjá leiki úr því sem komið var. Við vorum mjög svekktir eftir fyrsta leik og ætlum svo sannarlega ekki í sumarfrí,“ segir Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur. Liðið vann öruggan sigur á Snæfelli í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni Domino’s deildar karla, 105-90 á mánudagskvöld í Ljónagryfjunni. Staðan í einvíginu er því 1-1 og ræðst annað kvöld hvort liðið fer áfram í undanúrslit þegar oddaleikur liðanna fer fram í Stykkishólmi.

„Það var frábær stemmning á mánudag og magnað andrúmsloft. 90% áhorfenda voru líklega Njarðvíkingar og það er alltaf gaman að leika fyrir fullu húsi. Við teljum okkur eiga góðan möguleika á að komast áfram. Við vorum klaufar í fyrsta leiknum en lékum svo mjög vel á mánudag. Varnarleikurinn hefur styrkst mikið eftir áramót, hugarfarið er beittara og við höfum mikla trú á sjálfum okkur. Það sést þegar lið leikur með sjálfstraust,“ segir Einar.

Úr núll mínútum í leiðtoga

Leikstjórnandi Njarðvíkinga, Elvar Már Friðriksson, hefur leikið frábærlega fyrir Njarðvíkinga í ár. Í síðustu viku setti hann nýtt met þegar hann varð yngsti íslenski leikmaðurinn til að skora 30 stig í leik. Hann skoraði 35 stig í útileiknum gegn Snæfelli sem tapaðist með einu stigi. Einar Árni hælir þessum unga leikmanni á hvert reipi.

„Elvar hefur átt frábært ár. Hann hefur tekið gríðarlegum framförum. Fyrir tveimur árum þá spilaði hann núll mínútur í úrslitaleik í unglingaflokki um Íslandsmeistaratitilinn. Tveimur árum síðar er hann orðinn leikstjórnandi og leiðtogi í þessu liði. Hann er dæmi um leikmann sem hefur náð miklum framförum með mikilli vinnu. Elvar getur náð mjög langt,“ segir Einar Árni sem hefur byggt upp ungt en gott lið skipað heimamönnum.

„75% af okkar leikmönnum eru hreinræktaðir Njarðvíkingar og það vilja Njarðvíkingar sjá. Aðrir leikmenn smellpassa inn í þennan leikmannahóp. Það hefur verið saga Njarðvíkinga í gegnum tíðina að búa til góða körfuboltamenn. Það er markmið félagsins að hjálpa sem flestum leikmönnum út í háskóla eða í atvinnumennsku. Ég er handviss um að nokkrir leikmenn úr þessum hópi fari þá leið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024