„Eigum helling inni“
Keflavíkurkonur gjörsigruðu botnlið KR í gær með 64 stiga mun, 104-40, í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Birna Valgarðsdóttir var stigahæst í Keflavíkurliðinu með 22 stig.
Keflavík náði strax yfirhöndinni og leiddi 32-16 að loknum fyrsta leikhluta. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 27-52.
Yfirburðir Keflavíkur voru ekki síðri í seinni hálfleik en staðan að loknum þriðja leikhluta var 33-73 og öruggur sigur þegar í höfn ef ekki strax í hálfleik. Fjórði og síðasti leikhlutinn var eingöngu formgangsatriði fyrir Íslandsmeistarana og voru lokatölur leiksins 104-40.
Alls voru sex leikmenn frá Keflavík sem gerðu 10 stig eða meira í leiknum í gær. Birna Valgarðsdóttir gerði 22 stig, Bryndís Guðmundsdóttir 20 og María B. Erlingsdóttir 14.
„Við spiluðum ágætlega í gær,“ sagði Anna María Sveinsdóttir í samtali við Víkurfréttir. „Liðin í deildinni eru að styrkja sig en það verða Keflavík, Haukar og Grindavík sem verða í toppbaráttunni.“ Aðspurð um stöðu Keflavíkur í deildinni sagðist Anna María ekki hafa neinar áhyggjur. „Við erum ekkert stressaðar og eigum alveg helling inni,“ sagði Anna María að lokum.
VF-mynd/ frá viðureign liðanna á síðustu leiktíð