Eiga flugeldasýningu inni
Körfuknattleikslið Keflavíkur hélt utan í morgun en þeir mæta portúgalska liðinu CAB Madeira í seinni viðureign liðanna í Madeira á morgun.
Sem kunnugt er þá gjörsigraði Madeira Keflavík í Sláturhúsinu s.l. fimmtudag 87-108. Til þess að komast áfram í áskorendakeppni Evrópukeppninnar þurfa Keflvíkingar að sigra Madeira með 22 stigum.
Lykilmenn á borð við A.J. Moye og Zlatko þurfa að gera mun betur á morgun en þeir gerðu á fimmtudaginn var. Ekki er öll nótt úti hjá Keflvíkingum þar sem þeir sigruðu BK Riga með 31 stig þegar þeir komust í 16 liða úrslitin. Þriggja stiga skotin voru afleit hjá Keflavíkurliðinu gegn Madeira og því eiga þeir inni eina flugeldasýningu sem þeir verða vonandi færir um að setja á laggirnar í Portúgal.
Leikurinn hefst kl. 19:30 að íslenskum tíma.