Egill Jónasson: Villuvandræði og varin skot
Egill Jónasson hefur hafið leiktímabilið með nokkrum látum hjá Njarðvíkingum. Hann er um þessar mundir með flest varin skot í deildinni eða 14 varin skot í tveimur leikjum á aðeins 40 mínútum. Honum næstur er Matthew Williams, leikmaður Fjölnis, með 10 varin skot á 63 mínútum.
Þó hefur loðað við leik Egils að hann sé að lenda í villuvandræðum. Í leiknum gegn Skallagrím í fyrstu umferð Iceland Express deildarinnar þurfti hann að fara af leikvelli með 5 villur og gegn KR í annarri umferð var hann með 3 villur í hálfleik og lauk leik með 4 villur. Er Egill grófur leikmaður eða er að koma fram á sjónarsviðið leikmaður sem leikmenn og dómarar eiga eftir að venjast, nýr Dikembe Mutombo?
Hvað finnst þjálfaranum?
„Egill er allt annað en grófur leikmaður, hann var sérlega óheppinn í Skallagrímsleiknum og við vorum ósáttir við 3 af 4 villum í KR leiknum. Það er mikið að gerast í kringum Egil þegar hann er inni á vellinum. Hann er leikmaður með frábærar tímasetningar og það hefur ekki verið raunin að hann sé grófur. Þetta er bara einhver ólukka svona í upphafi tímabils. Egill er að ógna um 15 skotum andstæðinganna í leik og ver að meðaltali 7 skot í leik,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga, í samtali við Víkurfréttir í dag.
VF-myndir/ Þorgils Jónsson